Stormur í vatnsglasi

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Ernir Eyjólfsson

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, sagði í Kryddsíld Stöðvar 2, að það væri stormur í vatnsglasi þegar fullyrt væri að ríkisstjórnin stæði tæpt vegna hjásetu þriggja þingmanna flokksins í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið.

Steingrímur sagði að hjáseta þingmannanna þriggja væri vissulega vonbrigði en 35 þingmenn styðji ríkisstjórnina. Það sé aldrei þannig, að stuðningur við ríkisstjórn feli í sér að stuðningsmenn hennar styðji allt. Ríkisstjórnin hefði þurft að fást við mörg stór mál og það væri ekkert skrítið að menn hafi átt erfitt með að ná saman um hlutina. Ekki mætti missa sjónar á þeim árangri, sem ríkisstjórnin náði, að koma fjárlögum og öðrum stórum málum í gegnum þingið.

Þá sagði Steingrímur að þingið allt ætti hrós skilið fyrir það hvernig það vann málin til enda á síðustu dögunum fyrir jól. 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist hins vegar ekki telja, að þremenningarnir væru í stjórnarliðinu en hún vonaði að þeir myndu snúa aftur til baka á nýju ári. Sagði hún, að ríkisstjórnir hefðu oft starfað með nauman meirihluta. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri mál dagsins í dag hvort ríkisstjórnin lifi eða ekki og síðast í dag hefðu verið uppi hálfgerðar hótanir um stjórnarslit vegna yfirlýsinga Jóns Bjarnasonar, sjávar- og landbúnaðarráðherra, um væntanlegt atvinnuvegaráðuneyti. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði ekki hægt að sitja uppi með ríkisstjórn sem líti á það sem sitt helsta hlutverk sitt að reyna að lifa af.  Því ætti ríkisstjórnin að þiggja það boð, að allir flokkar komi að stjórn landsins.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að stjórnarflokkarnir væru í algerri afneitun á ástandið, sem væri eins og síðustu dagar Rómaveldis.  „Það verður örugglega komið á nýtt stjórnarmynstur í janúar," sagði hann.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði skelfilegt að hlusta á þennan bölmóð stjórnarandstöðunnar þegar allt í samfélaginu væri á uppleið. Hún sagðist vilja hafa virka stjórnarandstöðu, sem veiti stjórnarflokkunum aðhald en þeir vildu nú taka við völdum og byðu upp á þjóðstjórn sem aðeins væri gripið til þegar neyðarástand ríkti í þjóðfélaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert