Dýrara að ferðast með strætó

Strætó
Strætó

Vagnar Strætó aka samkvæmt áætlun á helgidögum í dag og er þetta fyrsti dagur ársins sem vagnarnir aka. Fargjöld strætó hækka á morgun og kostar eitt fargjald nú 350 krónur í stað 280 krónur fyrir áramót. Jafnframt er dregið úr akstri strætó seint á kvöldin en sú breyting tekur væntanlega gildi í næsta mánuði.

Stjórn Strætó samþykkti í síðasta mánuði að hækka fargjöld í fyrsta sinn frá því í janúar 2007. Þetta er gert til að mæta því að fargjaldatekjur Strætó hafa rýrnað um u.þ.b. helming að raunvirði frá stofnun Strætó bs. árið 2001 þar sem fargjöld hafa ekki haldið í við almenna verðlagsþróun frá þeim tíma.

Eigendur Strætó bs., sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, munu jafnframt draga úr framlögum sínum til Strætó bs. á næsta ári. Gert er ráð fyrir að framlögin lækki um 5% milli áranna 2010 og 2011 og þar sem framlög eigendanna eru um 83% af tekjum Strætó bs. þýða minni framlög að hagræða þarf í rekstri. Til að mæta því verður dregið úr þjónustu á þeim tíma sem fæstir nota strætó, segir á vef Strætó.

Fargjöld Strætó munu hækka á bilinu 5% til 25%. Minnst hækkun verður á 20 miða kortum barna og ungmenna.

Eldri borgara afsláttur miðast við 70 ár ekki 67 ár líkt og áður

Einnig verður ákveðin kerfisbreyting á fargjöldum 6 – 18 ára. Þessi aldurshópur mun ekki lengur geta keypt stakt fargjald í strætisvögnum á sérstöku verði, en sú nýjung var tekin upp árið 2007 að börn og ungmenni gátu keypt staka ferð á 100 krónur. Börnum og ungmennum mun hins vegar áfram bjóðast sérstök 20 miða kort, þar sem börn 6-12 ára greiða 40 krónur fyrir ferðina (6,7% hækkun) og ungmenni 12-18 ára 105 krónur fyrir ferðina (5% hækkun). Jafnframt verður gerð sú breyting að afsláttur eldri borgara mun miðast við 70 ára aldur í stað 67 áður.

Fjölga vögnum á annatíma

„Þjónustuaðlögun Strætó miðast við þann tíma sem fæstir nota strætó, þ.e. að kvöldi til og að morgni um helgar. Hins vegar verður ekki dregið úr akstri að degi til virka daga og þannig reynt að tryggja að þjónustuaðlögunin hafi áhrif á eins fáa notendur strætó og hægt er.

Ennfremur er gert ráð fyrir að Strætó muni bregðast við aukinni eftirspurn á annatímum með aukinni notkun stærri strætisvagna og fleiri viðbótarvagna þegar flestir eru á ferðinni. Nánari útfærsla á þjónustuaðlögun verður kynnt síðar, en gert er ráð fyrir að hún komi til framkvæmda í febrúar," segir á vef Strætó.


Farmiða barna og ungmenna má panta á Strætó.is og fá senda heim eða sækja þá á sölustöðum á Hlemmi eða í Mjódd. Farmiðana má einnig kaupa á Hlemmi og í Mjódd, í Kringlunni og Smáralind, ákveðnum íþróttamiðstöðvum og sundlaugum og fleiri útsölustöðum. Ítarlegan lista útsölustaða má jafnframt finna á vef Strætó

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert