Fjöldi fulltrúa gæti breyst

Bæta gæti þurft við stólum í Ráðhúsi Reykjavíkur ef frumvarp …
Bæta gæti þurft við stólum í Ráðhúsi Reykjavíkur ef frumvarp til sveitarstjórnarlaga verður samþykkt. Ernir Eyjólfsson

Verði frumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum samþykkt gæti það þýtt að borgarfulltrúar í Reykjavík yrðu að minnsta kosti 23, en þeir eru í dag 15. Frumvarpsdrögin liggja fyrir á vef innanríkisráðuneytisins, en frestur til að gera athugasemdir er til 23. janúar næstkomandi.

Frumvarpsdrögin eru afrakstur vinnu starfshóps sem skipaður var af Kristjáni L. Möller, þáverandi ráðherra sveitarstjórnarmála, í janúar á síðasta ári. Í frumvarpsdrögunum eru ekki lagðar til „grundvallarbreytingar á sveitarstjórnarlögum,“ eins og það er orðið í skilabréfi starfshópsins. Hins vegar komi þar fyrir mikilvæg nýmæli sem mikilvægt að umræða fari fram um.

„Þau helstu lúta að fjármálum sveitarfélaga, samvinnu sveitarfélaga og almennu stjórnsýslueftirliti með sveitarfélögum, enda er mikil og brýn þörf á að þessum ákvæðum verði breytt. Aðrar mikilvægar tillögur koma hins vegar einnig fram í drögunum, bæði hvað varðar réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna og möguleika íbúanna til aðgangs að upplýsingum um málefni sveitarfélagsins og til að hafa áhrif á stjórnun þeirra.“

Fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa er skilgreindur á ákveðnu bili, og tengdur við íbúafjölda sveitarfélagsins undanfarin átta ár. Þessi viðmið eru eftirfarandi.

1. Þar sem íbúar eru undir 2.000: 5 til 7 aðalmenn.
2. Þar sem íbúar eru 2.000 til 9.999: 7 til 11 aðalmenn.
3. Þar sem íbúar eru 10.000 til 49.999: 11 til 15 aðalmenn.
4. Þar sem íbúar eru 50.000 til 99.999: 15 til 23 aðalmenn.
5. Þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri: 23 til 31 aðalmenn.

Frumvarpsdrögin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert