Össur: Fundurinn hefur hreinsað loftið

Össur Skarphéðinsson í Brussel.
Össur Skarphéðinsson í Brussel. FRANCOIS LENOIR

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að fundarhöld þingflokks Vinstri grænna í dag hafi „hreinsað loftið“. Hann segir deilurnar innan VG ekki hafa nein áhrif á stöðu ríkisstjórnarinnar og umsókn Íslands að Evrópusambandinu.

„Eins og þetta birtist mér, þá er ekkert sem kemur mér á óvart,“ segir Össur. Hann kveðst ánægður með að það liggi fyrir að allir þingmenn VG styðji ríkisstjórnina. „Eftir þennan fund liggur ljóst fyrir að óánægja þessara þingmanna er ekki svo mikil að þau telji rétt að hverfa frá stuðningi við ríkisstjórnina.“

Össur segir að orð Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Vinstri grænna, í Kastljósinu í kvöld séu byggð á misskilningi. Ásmundur sagði að umsóknarferlið væri dýpra og kostnaðarsamara en áður var talið og að auknar kröfur væru um aðlögun. „Það er alls ekki svo, ESB er ekki að gera meiri kröfur heldur en að menn gerðu sér grein fyrir fyrirfram. Ég held að staðan sé skýrari og betri en áður, en tíminn verður að leiða það í ljós ef þetta er rangt mat hjá mér,“ segir Össur.

Um stöðu ríkisstjórnarinnar segir ráðherrann: „Ég er lífsreyndur í pólitík og taldi aldrei að hjáseta þriggja þingmanna og harkaleg yfirlýsing þeirra stefndi þingmeirihlutanum í hættu. En þetta hefur hreinsað loftið. Það liggur nú ljóst fyrir að ríkisstjórnin nýtur stuðnings 35 þingmanna.“

En telur Össur að allir 35 þingmennirnir geri það með hreinni samvisku? „Ég ætla nú ekki fólki sem stjórnarskráin leggur á herðar þá skyldu að starfa eftir dýpstu sannfæringu sinni, neitt annað heldur en að hafa hreina samvisku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert