Fréttaskýring: Óþreyja og pirringur að aukast hjá vinstri grænum

Það skýrist undir kvöld hvort einhver sátt næst í þingflokki …
Það skýrist undir kvöld hvort einhver sátt næst í þingflokki VG. Frá vinstri: Álfheiður Ingadóttir, Katrín Jakobsdóttir varaformaður, Atli Gíslason, „illsmalanlegur köttur“, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

Þótt fjölmargir félagar í VG hafi gefið það til kynna í samtölum við Morgunblaðið að forystu flokksins sé orðið ljóst, að koma verði umræðum um Evrópusambandsaðildarviðræður Íslands og aðlögunarferli að regluverki ESB í nýtt og breytt horf, eigi að horfa til einhvers friðar innan flokksins, þá var ekki annað að heyra á viðmælendum í gær, en að þeir séu heldur svartsýnir á að slíkt takist. „Of lítið of seint,“ segir VG-félagi af höfuðborgarsvæðinu, sem er í hópi þeirra svartsýnu.

Þingflokksfundur VG hefst í dag kl. 12 á hádegi. Fundarhlé verður gert vegna jarðarfarar um kl. 14.30 og áætlað er að fundi verði framhaldið um kl. 17 síðdegis í dag, samkvæmt upplýsingum Árna Þórs Sigurðssonar, starfandi þingflokksformanns VG.

Eins og kom fram hér í Morgunblaðinu í gær, er búist við því að helsta ágreiningsefni fundarins muni lúta að Evrópumálum. Enginn sem rætt var við í gær á von á því að einhver botn fáist í málið á fundinum í dag, en augljóst er að ákveðinnar þreytu og pirrings er farið að gæta í flokknum vegna þess stöðuga ófriðar sem þar virðist ríkja.

Sagan endalausa

Þannig sagði fulltrúi VG í kjördæmisráði Reykjavíkur í samtali við Morgunblaðið í gær: „Ég, eins og mjög margir félagar sem ég hef rætt við, er orðinn mjög þreyttur á þessari endalausu sögu. Þetta er að verða tveggja ára saga, umræðan um ESB innan flokksins. Ef það á að leggja þennan þingflokksfund upp sem átakafund um Evrópusambandið og aðlögunarferlið, þá hafa þegar farið fram á vegum flokksins og innan stofnana hans einir sex fundir um þau málefni, þar sem þeir sem Samfylkingin nefnir illsmalanlega ketti hafa reynt að stoppa þetta ferli, án árangurs, en þeir láta sér ekki segjast og það finnst mörgum okkar orðið ansi hvimleitt og þreytandi.“

Undir þetta sjónarmið tekur kjördæmisráðsmaður VG í Norðvesturkjördæmi, sem segir að það sé alls ekki þannig að allir eða meirihluti flokksmanna vilji slíta ESB-ferlinu og það sé ekki heldur þannig að allir sem kusu VG í síðustu kosningum vilji alls ekki inn í Evrópusambandið. „Við viljum mörg ljúka aðildarviðræðunum, sjá hvað kemur út úr þeim og leggja svo útkomuna í dóm þjóðarinnar,“ segir hann.

Aðrir VG-félagar af landsbyggðinni sem rætt var við í gær eru síður en svo þeirrar skoðunar að andstaða þeirra Atla Gíslasonar, Ásmundar Einars Daðasonar, Lilju Mósesdóttur, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og ráðherranna Jóns Bjarnasonar og Ögmundar Jónassonar við þann farveg sem Evrópusambandsmál eru nú í sé hvimleið og þreytandi. „Hún er til marks um stefnufestu. Hún er sem betur fer til marks um það að ákveðinn hluti okkar forystuliðs í þingflokki og ríkisstjórn vill standa við stefnu VG. Þetta fólk vill standa við þá stefnu sem kjósendum var lofað í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og því tel ég mér óhætt að fullyrða að við erum mjög stór hópur í VG, bæði af landsbyggðinni og af höfuðborgarsvæðinu, sem styðjum þessa sexmenninga heilshugar,“ segir VG-félagi, sem á von á því að deilur innan VG, bæði í þingflokki og svæðafélögum um Evrópumál, samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Icesave, Magma og vinnubrögð forystunnar muni halda áfram um langt skeið.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert