„Verið að læsa HM í kústaskáp“

Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Páll Magnússon útvarpsstjóri. mbl.is

„Ef þeir taka ekki þessu tilboði, þá finnst mér það mjög miður. Mér finnst að 365 hefðu átt að sjá sóma sinn í því að vinna með Rúv í því skyni að gera Íslendingum öllum kleift að horfa á landsliðið í heimsmeistarakeppninni í handbolta,“ segir Páll Magnússon, útvarpsstjóri. Hann segir tilboðið vera lagt fram í fúlustu alvöru.

Páll segir tímasetninguna vera vegna þess að nú liggur fyrir að menntamálaráðuneytið getur ekki krafist þess að leikirnir verði í opinni dagskrá. „Þetta er síðasta tilraun okkar til að tryggja að almenningur geti haft aðgang að þessu efni. Það er mín skoðun að íslenska landsliðið í alþjóðlegri keppni eigi að vera í opinni sjónvarpsdagskrá. Þetta er ekki flókin regla. Þessa reglu hafa Norðmenn. Við töldum að menntamálaráðuneytið myndi stuðla að þessu og það ekki endilega í gegnum Rúv,“ segir útvarpsstjórinn.

En hvers vegna lagði Rúv ekki þessa upphæð fram þegar þeim bauðst að kaupa sýningarréttinn á sínum tíma? „Það var okkar mat að sú upphæð sem við buðum í þetta á þeim tíma myndi duga til að tryggja sýningarréttinn. Við höfðum ríka ástæðu til að ætla að það mat okkar væri rétt. Það reyndist ekki rétt.“ Páll segir að Rúv hafi hvorki boðist að jafna tilboð 365 miðla né bjóða betur. Seljandinn hafi hreinlega hafnað Rúv og selt 365 miðlum réttinn.

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, sagði í viðtali við Mbl.is fyrr í dag, að hann furðaði sig á uppruna þeirra fjármuna sem Rúv væri tilbúið að bjóða fram nú á tímum niðurskurðar. Páll svarar Ara fullum hálsi: „Ég held að Ríkisútvarpið sé mun betur á vegi statt rekstrarlega og afkomulega séð heldur en 365 og við erum í fullum færum að sinna okkar hlutverki að þessu leyti.“ Hann segir tilboðið vera í fullu samræmi við stefnu Rúv um að sýna viðureignir landsliða Íslands á alþjóðlegum mótum. „Við teljum okkur bera skylda til þess að freista þess að Íslendingar fái að njóta mótsins. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það eru innan við tíu prósent þjóðarinnar sem ná [Stöð 2 sport]. Það er verið að læsa íslenska handboltalandsliðið inni í kústaskáp,“ segir útvarpsstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert