„Sérkennilegt og grafalvarlegt“

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir mál Birgittu Jónsdóttur og bandarískra stjórnvalda „harla sérkennilegt og grafalvarlegt“ við fyrstu sýn. Hann kveðst ekki geta tjáð sig mikið um málið að svo stöddu en hefur óskað eftir upplýsingum frá Birgittu vegna málsins.

„Auðvitað er það grafalvarlegt mál ef að verið er að setja fram kröfu um að hún reiði fram persónuleg gögn til bandarískra stjórnvalda. Hún er íslenskur alþingismaður og þar að auki fulltrúi í utanríkismálanefnd alþingis,“ segir Ögmundur.

Ögmundur kveðst vilja fylgjast með framvindu málsins og hefur óskað eftir upplýsingum frá Birgittu. Hann gerir ráð fyrir því að eiga fund með Birgittu eftir helgi.

Ráðherrann sagðist ekki geta tjáð sig meira um málið fyrr en hann hefði kynnt sér það til hlítar. Hann ítrekaði þó að honum þætti málið harla sérkennilegt og alvarlegt.

„Þær upplýsingar sem fram hafa komið hjá Wikileaks og öðru hafa ekki skaðað aðra en baktjaldamakkara. Ég er á því að því betur sem okkur tekst að gera alla stjórnsýslu gagnsærri og veita okkur innsýn í hvað gerist í löndum þar sem stundaður er hernaður, það getur ekki verið til annars en góðs að mínum dómi,“ segir Ögmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert