Twitter gert að afhenda öll skilaboð Birgittu

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur skipað örbloggssíðunni Twitter að afhenda ráðuneytinu öll skilaboð sem Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur skrifað á síðuna. Birgitta segir að bandarísk yfirvöld vilji fá lista yfir öll skilaboð frá því 1. nóvember 2009.

„Baráttan fyrir upplýsingafrelsinu er rétt að byrja,“ segir hún á Facebook-síðu sinni.

Einnig hefur verið fjallað um málið á vef DV og á vef breska ríkisútvarpsins og breska blaðsins The Guardian. 

„Átta þau sig á því að ég íslenskur þingmaður,“ segir Birgitta frétt á vef Guardian.

Hún segist ætla berjast gegn því að bandaríska dómsmálaráðuneytið fái aðgang að skilaboðunum með lagalegum úrræðum. Á Facebook síðu sinni segist hún hafa 10 daga til að stöðva Twitter.

Hún segir að ráðuneytið sé að biðja um mun persónulegri upplýsingar heldur en einvörðungu þau blogg sem hún hafi skrifað á síðuna, og þetta eigi við öll skilaboð.

Birgitta krefst þess að fá að hitta sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi vegna málsins.  Bandarísk yfirvöld hafi gengið of langt.

Hún segir á Facebook að þetta sé leið bandarískra stjórnvalda til að koma höggi á Wikileaks.  Þetta sé „prinsipmál“. 

„Ég hef ekki neitt að fela - en ég er ekki að fara að láta það eftir DoJ [bandaríska dómsmálaráðuneytinu] að fá persónuupplýsingar um mig til að nota til að byggja upp mál gegn wikileaks byggt á ævafornum njósnaralögum án mótþróa - árásirnar á þá sem koma að wikileaks sem sjálfboðaliðar eða starfsmenn er úr öllum takti við það sem forseti BNA boðaði fyrir kosningar,“ skrifar Birgitta á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert