Bandaríkjamenn beita lögum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ernir

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki deila skoðun utanríkis- og innanríkisráðherra um að mál Birgittu Jónsdóttur og bandarískra stjórnvalda sé háalvarlegt. Hann segir að Geir H. Haarde hafi fengið verri meðferð hér á landi þegar tölvupóstar hans voru rannsakaðir.

„Ég á eftir að átta mig á því hvað það er sem er svona alvarlegt við það að bandarísk stjórnvöld séu að rannsaka það sem þeir telja vera refsivert brot samkvæmt sínum lögum,“ segir Bjarni.

„Hvaða prinsipp eru það sem Bandaríkjamenn eru að brjóta? Það er ekki langt síðan að mönnum fannst það mjög eðlilegt að fyrrverandi forsætisráðherra Íslands þyrfti að sæta því að allur hans tölvupóstur yrði gerður upptækur án dómsúrskurðar. Þar með talið allt sem varðaði hans einkahagi og var að finna í þessum pósti. Það var enginn greinarmunur gerður á því,“ segir Bjarni. Hann segir þó vissulega vera mun á málunum tveimur, annað sé innanríkismál en hitt utanríkismál.

Wikileaks brjóta lög á meðan Bandaríkjamenn beita lögum

Bjarni trúir því ekki að rannsókn Bandaríkjamanna snúi að störfum Birgittu sem alþingismaður. Hann spyr: „Er það sjónarmið Birgittu að það sé í fínu lagi að brjótast inn í gögn bandarískra stjórnvalda með ólögmætum hætti og dreifa þeim, en þegar bandarísk stjórnvöld ætla að rannsaka málið og óska eftir gögnum fyrir dómstólum, þá sé það háalvarlegt mál?“

Bjarni segist ekki efast um að Birgitta segi satt og rétt frá þegar hún segist ekkert hafa að fela. Hann segir að sannleikurinn muni leiða það í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert