Greiða þarf 26,1 milljarð vegna Icesave í ár

Fjármálaráðuneytið hefur skilað umsögn um Icesave-málið til fjárlaganefndar.
Fjármálaráðuneytið hefur skilað umsögn um Icesave-málið til fjárlaganefndar. Kristinn Ingvarsson

Fjármálaráðuneytið áætlar að ríkissjóður þurfi að greiða 58,9 milljarða vegna Icesave fram til ársins 2016, þar af 26,1 milljarð á þessu ári og 10,4 á næsta ári.

Þetta kemur fram í umsögn ráðuneytisins til fjárlaganefndar. Nefndin óskaði eftir að fá upplýsingar frá ráðuneytinu um hvaða áhrif samningarnir við Breta og Hollendinga hefðu á fjárlagagerð næstu ára.

Í svarinu segir að samningarnir geri ráð fyrir að ríkissjóður fjármagni vaxtakostnað af þeim höfuðstól Icesave-skuldbindingarinnar sem er óuppgerð á hverjum tíma. Að því gefnu að forsendur fyrir mati samninganefndarinnar gangi eftir er gert ráð fyrir að heildargreiðslur úr ríkissjóði til Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta fram til ársins 2016 verði rúmir 47 milljarðar. Því til viðbótar er 3 milljarða greiðsla vegna útlagðs kostnaðar Breta og Hollendinga við útgreiðslu innistæða á sínum tíma, en samið var um tiltekna hlutdeild í þeim kostnaði. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja tryggingasjóðnum til 26,1 milljarða á þessu ári, þar af 9 milljarða vegna áranna 2009-2010 umfram þá 20 milljarða sem sjóðurinn getur sjálfur greitt vegna vaxtagreiðslna á þessu ári.

Ríkissjóður þarf síðan að greiða 10,4 milljarða á næsta ári, 8,6 árið 2013, 7 milljarða árið 21014, 5 milljarða 2015 og 1,8 milljarða árið 2016.

Í fjárlögum sem samþykkt voru í desember er ekki gert ráð fyrir neinum greiðslum vegna Icesave. Fjármálaráðuneytið segir að ástæðan sé sú að Alþingi sé ekki búið að afgreiða málið. Verði Icesave-samningarnir samþykktir á Alþingi þurfi að leita heimildar Alþingis að greiða það sem fellur á ríkissjóð. Fjármálaráðuneytið segir að vegna undirbúnings fjárlagafrumvarps vegna ársins 2012 verði fjögurra ára áætlun í ríkisfjármálum endurskoðuð með tilliti til Icesave-skuldbindinganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert