Húsleitir vegna Landsbanka

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

Húsleitir voru gerðar á þremur stöðum í dag á vegum embættis sérstaks saksóknara í tengslum við rannsókn á meintum brotum í starfsemi Landsbankans fyrir fjármálahrunið. Voru sjö manns færðir til skýrslutöku vegna málsins.

Um er að ræða rannsókn á kaupum Landsbanka Íslands á hlutabréfum, gefnum út  af bankanum og lánveitingum bankans til hlutabréfakaupa.

Um er að ræða eftirtalin mál:

  1. Meint markaðsmisnotkun Landsbanka Íslands með hlutabréf útgefin af bankanum.
  2. Lánveitingar til félaganna Hunslow S.A., Bruce Assets Limited, Pro-Invest Partnes Corp. og Sigurðar Bollasonar ehf. til kaupa á hlutabréfum í Landsbankanum.
  3. Kaup Landsbanka Íslands á lánasafni Landsbankans í Luxemburg.
  4. Kaup á hlutabréfum í bankanum af hálfu félaga sem héldu um kauprétti starfsmanna Landsbankans og lánveitingar til þeirra félaga.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti sérstaks saksóknara er verið að rannsaka meint brot á  auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum bankans og brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Um sé að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns og fjölmörgum tilvikum.

Fjármálaeftirlitið vísaði málunum til embættis sérstaks saksóknara með kærumá síðasta ári. Aðgerðirnar í dag hafa um nokkurt skeið verið í undirbúningi og tóku 30 starfsmenn embættisins þátt í þeim. Úrskurðir til leitar voru kveðnir upp við Héraðsdóm Reykjavíkur. Yfirheyrslur hófust í morgun og er þess að vænta að þær standi fram á kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert