Segir Icesavevinnu ganga vel

Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á …
Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á Alþingi.

Að sögn Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG og varaformanns fjárlaganefndar Alþingis, gengur vinna nefndarinnar við afgreiðslu Icesave frumvarpsins framar björtustu vonum.

„Við erum búin að funda í tvo daga frá morgni til kvölds. Til okkar hafa komið allir þeir umsagnaraðilar sem við óskuðum eftir, fyrir utan slitastjórn og skilanefnd Landsbankans, en við munum hitta þau eftir helgi,“ sagði Björn Valur í samtali við mbl.is.

„Við höfum fengið ítarlegar upplýsingar um áhrifin á efnahag landsins og fengum Seðlabankann og greiningarfyrirtæki til að taka það saman. Upplýsingum um lögfræðihluta málsins var skilað í morgun ásamt áliti ýmissa aðila vinnumarkaðarins, eins og ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.“

Björn Valur segist ekki geta svarað til um það hvenær frumvarpið verður afgreitt út úr fjárlaganefnd. „Ég get ekki sagt til um það, ég á von á að við þurfum að kalla eftir einstökum upplýsingum í næstu viku og eftir það mun skýrast hvenær við sjáum fyrir endann á þessu,“ segir Björn Valur.

Hann segir enga sérstaka tímapressu vera til staðar. „En því lengur sem verið er að ljúka málum, þeim mun erfiðara er að klára þau.“




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert