Í gæslu til 25. janúar

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald til 25. janúar, að sögn Sigurðar G. Guðjónssonar, lögmanns Sigurjóns.

Sigurjón var leiddur fyrir dómara  í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 14 í dag. Embætti sérstaks saksóknara krafðist  gæsluvarðhalds yfir Sigurjóni laust fyrir miðnætti í gærkvöldi en dómari tók sér frest áður en hann úrskurðaði um kröfuna.

Í kjölfarið mun dómari úrskurða um kröfu saksóknara um að  Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, sæti gæsluvarðhaldi.

Sjö fyrrverandi yfirmenn Landsbankans voru færðir til yfirheyrslu hjá embætti sérstaks saksóknara í gær vegna rannsóknar á meintri markaðsmisnotkun hjá Landsbankanum. Auk Sigurjóns og Ívars voru þau Elín Sigfúsdóttir, Yngvi Örn Kristinsson og Steinþór Gunnarsson yfirheyrð.

Um er að ræða rannsókn á kaupum Landsbanka Íslands á hlutabréfum gefnum út af bankanum og lánveitingum bankans til hlutabréfakaupa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert