Jón sendi stjórnlagaþingi bréf

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Sigurður Bogi Sævarsson

Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefur látið ráðuneyti sitt senda skipuleggjendum stjórnlagaþingsins bréf, þar sem bent er á nauðsyn þess að setja ákvæði um þjóðareign náttúrauðlinda í stjórnarskrá. Þetta kom fram í ræðu hans á fundi um sjávarútvegsmál í dag.

„Grundvallaratriði er að slíta á þau meintu eignatengsl sem hafa þróast milli útgerðarinnar og auðlindarinnar," sagði Jón, á fundinum, sem haldinn var á Grand hótel í dag. „Ráðuneytið hefur í þessu efni sent bréf til formanns undirbúningsnefndar fyrir stjórnlagaþing þar sem bent er á nauðsyn þess að festa í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign náttúruauðlinda. Þetta er í raun aðalatriði þessa máls."

Rakti hann framgang vinnunnar við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Sagði hann að skýrsla vinnuhóps um endurskoðun fiskveiðistjórnunar lægi til grundvallar þeirri vinnu sem nú færi fram í ráðuneytinu og hjá Fiskistofu við að smíða frumvarp til nýrra laga. Þá verði pólitískt samráð ríkisstjórnarflokkanna um efni frumvarpsins undir forystu Atla Gíslasonar og Ólínu Þorvarðardóttur, en Atli er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og Ólína varaformaður.

Í framhaldi af þessu pólitíska samráði ætti frumvarpið að fullklárast og koma fram einhvern tíma í febrúar. „Stefnt er að afgreiðslu frumvarpsins á yfirstandandi vorþingi. Treysti ég því fyllilega að svo verði," sagði Jón.

Hann sagði engan ágreining um að útgerð og fiskvinnsla þurfi stöðugleika. En það þurfi byggðir landsins líka. ,,Kannski er einmitt verið að fyrna byggðirnar með því kerfi sem verið hefur við lýði undanfarna áratugi," sagði Jón og vísaði þannig í deilur um svonefnda fyrningarleið.

„Ég býst við að við eigum líflegar vikur framundan, en þó tel ég að á síðastliðnum vetri hafi visst blað verið brotið. Skötuselsheimildirnar sem voru teknar út fyrir, það kostaði jú mikil átök en þessi nokkur hundruð tonn, eða hvað það nú var, höfðu miklu meiri pólitíska þýðingu eftir á að hyggja," sagði Jón. Sagðist hann fullviss um að skötuselurinn, sá opinmynnti fiskur, hefði oft glott að hamaganginum í kringum hann á síðastliðnum vetri.

Fundurinn var haldinn á vegum Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og Reykjavíkurfélags Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs og var á fundinum dreift sameiginlegri ályktun félaganna tveggja, sem sjá má hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert