Brown ætti að biðjast afsökunar

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/RAX

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir í samtali við bandaríska blaðið Wall Street Journal, að Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, ætti að biðja Íslendinga afsökunar á framkomu sinni í garð Íslendinga í bankahruninu í október 2008.

„Vilji Gordon Brown vera heiðvirður maður ætti hann að biðjast afsökunar á því að segja umheiminum að Ísland væri gjaldþrota land," hefur blaðið eftir Ólafi. 

Hann segir að rætt hafi verið um það á þeim tíma hvort Ísland ætti að höfða mál gegn breskum stjórnvöldum. „En nú gengur okkur betur, efnahagslega, en mörgum Evrópuríkjum," segir Ólafur. 

Viðtalið fjallar að stórum hluta um Icesave-málið og ákvörðun Ólafs um að synja Icesave-lögunum staðfestingar í janúar 2010. Segir Ólafur að frá pólitískum og stjórnskipunarlegum sjónarhóli sé það mikilvægasta ákvörðun, sem hann hafi tekið á forsetaferli sínum og hún hafi sparað Íslendingum mikið fé.

Hann segist ekki vilja tjá sig um nýtt Icesave-samkomulag, sem nú er til meðferðar á Alþingi. Þingið eigi rétt á að ræða málið án þess að forsetinn skipti sér af því.  

Í viðtalinu er einnig fjallað um aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Haft er eftir Ólafi Ragnari, að það muni á endanum ráðast af niðurstöðu í sjávarútvegsmálum hvort Íslendingar samþykkja að ganga í ESB. 

Hann segir einnig, að helsta ástæða þess að Ísland sóttu um aðild hafi verið að svo virtist sem Íslendingar gætu ekki lengur haft sjálfstæðan gjaldmiðil. Gengisfall íslensku krónunnar hafi hins vegar greinilega stutt við útflutningsgreinarnar og því séu nú heitar umræður um réttmæti aðildarviðræðnanna.  

„Við höfum séð ríki á evrusvæðinu lenda í hverjum vandræðunum á fætur öðrum. Þetta hefur breytt myndinni," segir Ólafur. Hann segir að það hljóti að vera mögulegt að Íslendingar gangi í Evrópusambandið án þess að taka upp evru og vísar til Póllands og Danmerkur í því sambandi.

Viðtalið í heild 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert