Formaður segir sig úr VG

Karólína Einarsdóttir, formaður Vinstri grænna í Kópavogi, hefur sagt sig úr VG og frá öllum trúnaðarstörfum sem hún hefur gengt innan eða á vegum flokksins. Þetta kemur fram í bréfi sem hún hefur sent framkvæmdastýru VG. Þar segir m.a. að flokkurinn logi í illdeilum.

Þá segir Karólína að ákvörðun forystu VG að standa ekki við stefnu flokksins í veigamiklum málum hafi haft afdrifaríkar afleiðingar. 

Þá kveðst hún sannfærð um að hvorki muni verði hægt að ná sáttum í VG né að flokksforystan muni vinna eftir stefnu hans.

Bréf Karólínu er svohljóðandi:

„Í nokkurn tíma hefur flokkurinn að mínu mati verið að fráhverfast hugmyndafræðinni sem hann var stofnaður um. Sú ákvörðun flokksforustunnar að standa ekki við stefnu flokksins í veigamiklum málum hefur haft afdrifaríkar afleiðingar, bæði skaðað flokkinn og gert vinstri stefnuna ótrúverðuglega. Í nær tvö ár hefur flokkurinn verið klofinn í afstöðu til margra mála eins og t.d. ESB, samstarfið við AGS, IceSave, Magma og nú síðast fjármálafrumvarpið. Lítið sem ekkert hefur verið gert til að reyna að miðla málum af alvöru og er svo komið að fólk hefur safnast í fylkingar og gert málefnalegan ágreining að presónulegum. Þau vinnubrögð sem eru viðhöfð í flokknum eru heldur ekki líkleg til að skapa traust né sætti milli fólks.

Flokkurinn logar í illdeilum og ég er orðin sannfærð um að hvorki verði hægt að ná fram sáttum í flokknum né að flokksforystan muni vinna eftir stefnu flokksins. Eftir mikla þankahríð um þessa stöðu flokksins hef ég ákveðið að hætta í flokknum, sem ég hef starfað í nær óslitið frá stofnun hans. Ég hef ekki lengur sannfæringu fyrir þessum flokki sem öflugs málsvara vinstri stefnunnar. Flokkur sem einkennist af tortryggni, blekkingum og illdeilum er heldur ekki líklegur til að vinna að jákvæðum og þörfum þjóðfélagsbreytingum.

Ég mun að sjálfsögðu ekki segja skilið við hugmyndafræðina og mun berjast fyrir henni á öðrum vettvangi. Ég hvet alla VG liða sem misst hafa trú á flokknum að segja skilið við hann og finna nýjan vettvang fyrir baráttuna. Mun betra er að nýta orkuna til að berjast út á við í stað þess að sóa henni í eilífar innanhússdeilur VG.“
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert