Þingmenn hafi ekki afskipti af bönkunum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ræðustóli.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ræðustóli. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að þannig væri búið um hnútana að ekki væri ætlast til að þingmenn væru með einum og öðrum hætti að hafa afskipti af bönkunum.

Nokkrar umræður urðu á Alþingi um svar, sem Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fékk frá fjármálaráðherra um sölu Landsbankans á fyrirtækjum. Í svarinu eru veittar upplýsingar, sem gefnar voru í fréttatilkynningu á sínum tíma og síðan segir, að NBI hf.–Landsbankinn telji sér almennt ekki skylt að svara fyrirspurnum alþingismanna um önnur málefni en þau sem teljast opinber.

„Í stuttu máli er svarið svona: Þingheimi kemur þetta ekki við," sagði Guðlaugur Þór. 

Jóhanna sagði, að settar hefðu verið eftirlitsnefndir bankasýsla og slitastjórnir til að hafa eftirlit með bönkunum. Þá minnti hún á, að Davíð Oddsson hefði þegar hann var forsætisráðherra, látið Stefán Má Stefánsson, vinna mikla skýrslu um einkavæðingu. Þar hafi komið fram að þingmenn ættu engan rétt á að fá upplýsingar innan úr einkavæddum fyrirtækjum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði gríðarlega mikilvægt að forsætisráðherra hefði lent í algerri mótsögn við sjálfa sig. Hún hefði lýst því yfir í svari við fyrirspurn til sín fyrr í dag, að allt ferlið varðandi sölu á fyrirtækjum yrði að vera opið og gagnsætt.

 „Hún segir núna ítrekað að það sé engar upplýsingar að fá um þessi mál, þetta séu trúnaðarupplýsingar innan úr bönkunum og allt sé þetta Davíð Oddssyni að kenna. Getur ekki virðulegur forseti (Alþingis) beitt sér fyrir því, að vald Davíðs Oddssonar yfir ríkisstjórninni minnki, því forsætisráðherra hefur margoft lýst því yfir að hana langi til að gera svo margt en alltaf kemur Davíð Oddsson og stoppar það," sagði Sigmundur Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert