Aðeins bútur til af upptökum úr öryggismyndavélum

Löng röð myndaðist fyrir framan dómsal í dag, og var …
Löng röð myndaðist fyrir framan dómsal í dag, og var þétt setið innan dyra. mbl.is/Árni Sæberg

Við skýrslutöku yfir Guðlaugi Ágústssyni, yfirmanni þingvarða Alþingis,  í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, kom fram að eins er til nokkurra mínútna bútur af upptökum úr öryggismyndavélum 8. desember 2008. Þann bút hafi Guðlaugur sjálfur valið sérstaklega til að sýna forsætisnefnd. Tekið hafi verið yfir annað efni.

Um er að ræða myndbrot sem sýnt hefur verið nokkrum sinnum í dómsal við aðalmeðferðina í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem ákærðir eru m.a. fyrir árás á Alþingi. Verjendur spurðu Guðlaug út í upptökurnar en áður hafði einn sakborninga bent dómurum á að forvitnilegt hefði verið að hafa lengri upptöku. Upptökunni lýkur með inngöngu lögreglu á vettvang.

Arngrímur Ísberg, meðdómandi í málinu, spurði Guðlaug einnig út í málið og hvort það væri þá helber tilviljun að yfirleitt væri til upptaka af atburðunum í þinghúsinu. Guðlaugur sagði hætt við því. Tryggvi Agnarsson, verjandi tveggja sakborninga, spurði þá hvernig stæði á valinu á myndefni, þ.e. hver hefði valið hvað sýna ætti forsætisnefnd. Guðlaugur sagðist sjálfur hafa valið það. Hann sagðist hins vegar ekki muna hvers vegna hann hafi ekki sýnt forsætisnefnd alla upptökuna.

Vitnaleiðslur standa sem hæst í Héraðsdómi Reykjavíkur og hefur verið rætt við þrjá þingverði og yfirmann þeirra, auk eins vitnis verjenda. Þar sem vitnið hefur setið málið frá því í morgun kastar það hins vegar rýrð á framburð þess en ekki er ætlast til að vitni fylgist með aðalmeðferðinni.

Vitnið, Steinar Kr. Sigurðsson, var með félögum sínum, m.a. sakborningum í Alþingishúsinu 8. desember 2008. Hann var hins vegar hvorki handtekinn né ákærður í málinu. Sagðist hann engar skýringar kunna á því, enda hafi hann ekki hagað sér á neinn hátt öðruvísi en hinir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert