Uppreisn glæpavædd með réttarhöldum

Úr héraðsdómi í dag.
Úr héraðsdómi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Málaferlin á hendur „Reykjavíkurníumenningunum“ eru tilraun til að glæpavæða lýðræðisuppreisnina frá 2008 eftir á og taka þannig úr henni pólitíkina,“ segir Andrej Hunko, þingmaður Die Linke í Þýskalandi, í yfirlýsingu, sem gefin var út í dag í tilefni af réttarhöldunum, sem nú standa yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

„Ásökun um „vanvirðingu við íslenska þingið“ hefur aðeins einu sinni verið notuð áður í sögu Íslands: Þegar mótmælendur lögðust gegn inngöngunni í NATO 1949. Það sýnir pólitíska hlið laganna,“ er haft eftir Hunko í tilkynningunni.

„Umsátrið um þingið leiddi til kosninga og pólitískra umskipta. Í stað þess að ógna hinum ákærðu með refsivist ætti að heiðra þá fyrir pólitískt innlegg þeirra.“

Hunko víkur síðan máli sínu að breska lögregluútsendaranum Mark Kennedy, sem frá 2005 lék tveimur skjöldum til að fylgjast með þeim einstaklingum, sem á Íslandi „tóku þátt í að knýja fram friðsamleg umskipti“ og bætir við: „Ég sé í þessari afhjúpuðu aðgerð útsendara, sem fóru huldu höfði á milli landamæra, aðgerð, sem tekist hefur um samstarf um alla Evrópu og beinist gegn félagslegum hreyfingum. Þess vegna hef ég í dag skrifað íslenskum þingmönnum og innanríkisráðuneytinu bréf þar sem ég greini stjórnmálamönnunum frá framtaki þýska þingsins vegna ólöglegra athafna hins óeinkennisklædda Marks Kennedys og legg til gagnkvæm samskipti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert