Skýrslutökum yfir sakborningum lokið

Frá mótmælum við Alþingishúsið.
Frá mótmælum við Alþingishúsið. mbl.is/Kristinn

Skýrslutökum yfir níu einstaklingum sem meðal annars eru ákærðir fyrir árás á Alþingi lauk á tólfta tímanum. Pétur Guðgeirsson, dómari málsins, hafði á orði að mun betur hefði gengið en vonast var eftir. Fyrir vikið verður farið í vitnaleiðslur eftir hádegi í dag.

Gert var ráð fyrir að aðalmeðferðin tæki þrjá daga en það er óvíst að svo mikinn tíma þurfi þar sem skýrslutökur gengu svo vel í morgun.

Þó svo svör sakborninga væru mismunandi um margt eiga þau sammerkt að telja sig öll hafa haft heimild til að fara inn í Alþingishúsið 8. desember 2008. Fæst voru þau til í að upplýsa um tilgang þess að fara inn í húsið, en meðal svara var að mótmæla, gleðja þingmennina og að sjást og láta í sér heyra.

Einn sakborninga, Kolbeinn Aðalsteinsson, viðurkenndi að sá valmöguleiki hafi verið opinn að raska störfum þingsins, hvort sem sú röskun yrði lítilsháttar eða stórvægileg. 

Öll neituðu þau - eða kusu að tjá sig ekki um - að hafa átt í stimpingum eða beitt þingverði og lögreglu ofbeldi. Engin hafi borið vopn eða séð til nokkurs með vopn. 

Þá kom fram í máli nokkurra sakborninga að lögregla hafi gefið loforð um að ef fólkið yfirgæfi Alþingishúsið yrðu engir eftirmálar. Annað hafi síðan komið á daginn. Að öðru leyti könnuðust sakborningar ekki við að fyrirmæli hefðu verið gefin af þingvörðum inni í húsinu, hvorki að fólki hefði verið bannað að fara á pallana eða inn í húsið.

Myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum voru sýndar við aðalmeðferðina. Snorri Páll Jónsson, einn sakborninga, benti dómurum málsins á að athyglisvert væri að um stytta útgáfu væri að ræða og ekki sæist neitt eftir að lögregla kom inn í þinghúsið.

 Lára V. Júlíusdóttir, settur saksóknari, spurði alla sakborninga hvort mótmælin hefðu verið skipulögð. Svörin voru annað hvort á þá leið að ekki hefði svo verið eða þá að sakborningar neituðu að svara. Þá spurði hún hvort haldinn hefði verið fundur fyrir mótmælin, og hvort hlutverkum hefði  verið útdeilt. Sömu svör fengust við þeirri spurningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert