Skýrslutökum lokið í máli nímenninganna

Í héraðsdómi í dag.
Í héraðsdómi í dag. mbl.is/Ómar

Skýrslutökum í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem m.a. eru ákærðir fyrir árás á Alþingi 8. desember 2008 lauk á öðrum tímanum í dag. Munnlegur málflutningur er þó enn eftir og hefst í fyrramálið.

Eftir hádegið var tekin skýrsla af tveimur vitnum verjenda sem voru staddir í Alþingishúsinu umræddan dag. Báru bæði vitni um að mótmælendurnir þrjátíu hefðu verið til friðs en lögregla farið full harkalega í aðgerðir sínar. Annar þeirra vildi raunar játa á sig sakir fyrir veru sína í Alþingishúsinu en dómari tók ekki við játningunni og bað vitnið vinsamlegast um að gefa sig fram við ákæruvaldið. Tók vitnið engu að síður sæti hjá sakborningum í kjölfarið.

Einnig var spiluð önnur upptaka úr öryggismyndavél Alþingis sem sýnir þegar mótmælendur fara í hóp að Alþingishúsinu, sumir hverjir með klút fyrir andliti. Myndbandið gaf þó hvorki ákæruvaldinu né verjendum ástæðu til að spyrja spurninga eða gera athugasemdir.

Málflutningur í fyrramálið hefst á ræðu setts saksóknara, Láru V. Júlíusdóttur. Í kjölfarið tekur við Ragnar Aðalsteinsson, verjandi fjögurra sakborninga og loks aðrir verjendur. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð ljúki á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert