Staðfestir handtökur

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Ómar

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfestir að handtökur hafi verið gerðar í tengslum við húsleitir embættisins í morgun. Gagna var aflað hjá MP banka, Seðlabanka Íslands, ALMC, sem áður hét Straumur. Húsleitirnar tengjast Landsbankanum.

Fréttavefur RÚV hefur það eftir heimildarmanni að Jón Þorsteinn Oddleifsson, fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar hjá Landsbanka Íslands, hafi verið handtekinn.

Ólafur segist ekki geta tjáð sig um tilefni húsleitanna, né heldur hverjir hafi verið handteknir. Aðgerð sé í gangi sem teflt yrði í tvísýnu með upplýsingagjöf á þessu stigi málsins. Frekari upplýsinga sé að vænta þegar þær séu yfirstaðnar.

Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans, staðfesti við mbl.is fyrir stundu að húsleit stæði þar yfir. Starfsmenn sérstaks saksóknara öfluðu gagna sem tengdust hinum föllnu viðskiptabönkum, en frekari upplýsingar gæti hann ekki gefið. Hann sagði engan starfsmann Seðlabankans hafa verið handtekinn í tengslum við rannsóknina.

Hjá MP Banka fengust þær upplýsingar að gagnaöflun færi fram, en ekki er vitað nákvæmlega hvers saksóknari sé að leita. Þar hafi heldur enginn verið handtekinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert