Salatbar fyrir gæsir eftir sinubruna í Vatnsmýrinni

Gæsir í brunninni sinunni í Vatnsmýri.
Gæsir í brunninni sinunni í Vatnsmýri. mbl.is/Ómar

Fjöldi gæsa hefur sést spóka sig í sótsvartri Vatnsmýrinni í kjölfar sinubrunans sem varð þar fyrir stuttu. Einhverjum þykir það eflaust furðulegt að gæsir sæki þangað. Raunin er sú að aðstæður í Vatnsmýrinni hafa sjaldan verið eins hagstæðar fyrir gæsir á þessum tíma árs.

„Þarna hafa gæsirnar mögulega séð matarholu í hinu nýbrennda graslendi og fæðu sem þær hefðu annars ekki getað nýtt sér ef sinan hefði verið yfir öllu,“ segir Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Sinan er eins og þykkt teppi yfir þessu. Ef þú brennir hana í burtu situr eins konar salatbar eftir.“

Flestar gæsir fljúga suður á bóginn yfir vetrartímann. Um þúsund verða þó eftir. Gæsir eru grasbítar og í sverðinum finna þær grænt gras. Ólafur segir að þær gæsir sem eru hér yfir vetrartímann nærist helst á brauðgjöfum og grænu grasi sem þær finna venjulega aðeins á blettum sem eru slegnir yfir vetrartímann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert