Ráðuneyti setur niður

Frá Egilsstöðum.
Frá Egilsstöðum. mbl.is/GSH

Fagleg ímynd velferðarráðuneytisins, áður heilbrigðisráðuneytisins, hefur beðið hnekki vegna skorts á faglegum vinnubrögðum við niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Þetta segir Stefán Þórarinsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Stefán flutti erindi á málþinginu Heilbrigðisþjónusta á krossgötum á læknadögum í dag og leitaðist þar við að útskýra aðbúnað heilbrigðisþjónustunnar á Austurlandi.

Í máli hans kom fram að skera átti niður í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni um 20-40% á einu ári. Stórlega hefði átt að minnka sjúkrahúsþjónustuna, með þeim afleiðingum að heilsugæslan hefði misst bakland sitt. Sagði hann skilningsskort uppi á viðfangsefnum heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni og þeim aðstæðum sem landsbyggðarfólk býr við.

Þegar niðurskurðartillögur hafi verið kynntar í haust hafi blasið við fækkun starfsmanna um 80-100 í heilbrigðiskerfinu á Austurlandi, eða sem nemur 30% heildarfjölda starfsmanna. „Það hefði skapast alvöru hætta á hruni í heilbrigðiskerfinu. Það hefði ekki verið hægt að halda því gangandi. Við fengum öll einkenni áfallaröskunar og höfum ekki jafnað okkur enn þá [...] Maður klórar sér í skallanum. Hvað veldur svona ákvarðanatökum? [...] Er þjóðfélagið að hrynja?“ spurði Stefán og velti því fyrir sér hvort þekkingarleysi væri um að kenna.

„Það átti nánast að taka baklandið af heilsugæslunni. Fórnarlömd þessara breytinga hefðu fyrst og fremst verið gamalt fólk með minniháttar sjúkdóma. Sem betur fer áttuðu menn sig á þessu í tæka tíð og björguðu á línu [...] En eftir standa lemstraðar stofnanir. Við horfum á lemstraða stjórnmálaforystu. Hvernig leiðir hún málaflokk eins og þennan? Hin faglega ímynd ráðuneytisins beið hnekki því það reyndist ekki vera nein fagleg vinna á bak við ákvarðanirnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert