Þernum á Herjólfi sagt upp

Þrjár þernur, sem störfuðu um borð í Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi, segjast hafa fengið afhent uppsagnarbréf í gær eftir að þær óskuðu eftir því að fá stéttarfélög sín til að fara yfir starfslýsingarsamning áður en hann yrði undirritaður.

„Við vildum láta stéttarfélagið okkar skoða hann, og létum skipstjórann vita af því í gær. En þá kom hann bara með uppsagnarbréfið og það gildir frá og með 23. [janúar],“ segir Íris Valgeirsdóttir, ein þernanna,  í samtali við mbl.is.

Íris segir að þernurnar hafi óskað eftir því að tvö atriði yrðu tekin út úr samningnum, sem varða þrif sem þernurnar sinna m.a. Sl. föstudag hafi þeim verið tjáð að annað hvort myndu þær skrifa undir eða verða reknar. Íris segist ekki hafa viljað svara þessu strax og segir að rekstrarstjóri Herjólfs hafi gefið sér frest fram á mánudag [þ.e. til dagsins í dag] til að svara.

Í lok vinnudags í gær hafi þernurnar rætt málið við skipstjóra Herjólfs um stöðuna. „Við sögðum við hann að við ætluðum að láta félagið okkar skoða þetta, og vorum búnar að fá tíma kl. 13 í dag. Þá kom hann með þetta uppsagnarbréf. Og uppsagnarbréfið er dagsett 12. janúar 2011,“ segir Íris og kveðst vera mjög undrandi. Hún hefur starfað sem þerna um borð í Herjólfi í rúm fimm ár.

Þernurnar þrjár funduðu í dag með Sjómannafélaginu Jötni og Stéttarfélaginu Drífanda vegna málsins.

„Við skiljum þetta ekki,“ segir Íris. Það sé skrítið að það sé hægt að reka fólk fyrir að vilja láta stéttarfélagið fara yfir samning. „Við ætlum að leita réttar okkar. Svo vitum við ekki meira, þetta er bara kjaftshögg.“

Ekki náðist í forsvarsmenn Eimskips við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert