Valdhafar vilja ekki breyta stjórnarskránni

Andrés Magnússon.
Andrés Magnússon.

„Þeir sem hafa völd í íslensku samfélagi vilja að sjálfsögðu ekki breyta stjórnarskránni. Þeir munu nota hvert tækifæri til að koma í veg fyrir það og þetta er bensín á það bál," segir Andrés Magnússon læknir og einn stjórnlagaþingsmanna aðspurður hvort hann telji að stjórnlagaþing sé úr sögunni með niðurstöðu hæstaréttar í dag.

Andrés telur sjálfur að eðlilegast væri að endurtaka kosningarnar. „Fyrst að svona er komið held ég að sé best að hafa nýjar kosningar og mikla umræðu um það hverju er hægt að breyta í nýrri stjórnarskrá. Að mínu mati er hægt að breyta ennþá meiru heldur en kom nokkurn tíma fram í umræðunni. Ég tel að þetta sé gífurlega mikilvægt verkefni, að það sé hægt að koma fram mörgum góðum breytingum á stjórnarskrá og að það sé mjög athyglisverð þessi aðferð að kjósa fulltrúa frá þjóðinni. 100-200 milljónir eru mjög lítill verðmiði fyrir bætt lýðræði, lýðræði má kosta, þannig að mér finnst það engin rök gegn nýrri kosningu að það kosti 100-200 milljónir."

Andrés segir að líta verði til þess að um var að ræða kosningar gjörólíkum öllum fyrri kosningum. „Ef þú lest Íslandssöguna þá sérðu að fyrstu kosningarnar hér á landi voru ekki burðugar, þær voru ekki leynilegar og konur tóku ekki þátt og þar fram eftir götunum. Menn voru lengi að þróa kosningar, þær stukku ekki fullskapaðar fram." Andrés segir að hæstiréttur hefði þurft að gefa færi á að fyrirkomulagið væri þróað áfram til framtíðar, en fyrst það hafi ekki verið gert sé eðlilegast að kjósa aftur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert