Greiðslum Baugs til lögmanns rift

Karl Georg Sigurbjörnsson, lögmaður.
Karl Georg Sigurbjörnsson, lögmaður.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á kröfu þrotabús Baugs Group um að rift verði tveimur greiðslum, samtals að fjárhæð 9,9 milljónir króna, sem Karl Georg Sigurbjörnsson, lögmaður, fékk hjá Baugi í lok ársins 2008.

Baugur fékk greiðslustöðvun í febrúar 2009 og félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í mars það ár.

Fram kom í málflutningi að Karl Georg fékk þessar greiðslur sem bætur vegna vinnutaps, álitshnekkis og kostnaðar sem hann varð fyrir vegna starfa sinna fyrir dótturfélag Baugs, A-Holding.

Karl Georg sagði í vitnisburði sínum að hann ásamt Sigurði G. Guðjónssyni hefði verið fenginn til þess verks að tryggja að viðskipti A-Holding með stofnfjárbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar „fengju sinn eðlilega gang.“

Hann var síðan ákærður af efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra  fyrir fjársvik, en hann var sagður hafa gefið fimm stofnfjáreigendum ranga mynd um verðmæti eignar sinnar. Karl Georg var sýknaður af ákærunni í Hæstarétti í mars á síðasta ári. 

Hann sagði fyrir dómi, að hann hefði ekki sætt sig við að fá einungis þá þóknun sem hann hafði þegar fengið frá A-Holding vegna viðskiptanna með stofnfjárbréfin, miðað við allt það sem hann gekk í kjölfarið í gegnum fyrir dómstólum. Þess vegna hafi hann samið við Stefán Hilmarsson, þá fjármálastjóra Baugs, um aukagreiðslu vegna útlagðs kostnaðar og mannorðshnekkis sem fylgdu áðurgreindum málaferlum. Þessum greiðslum hefur héraðsdómur nú rift.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert