Vestfirðir og Suðurnes í forgang

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á fundi á Flateyri í dag.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á fundi á Flateyri í dag. Ljósmynd/bb.is

„Okkur var tjáð að ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja Vestfirði og Suðurnesin í forgang hvað varðar aðgerðir í byggðamálum. Þetta tengist svokallaðri sóknaráætlun fyrir svæðin, en hér er sú vinna mjög langt á veg komin,“ segir Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, í samtali við Bæjarins besta en hann auk fulltrúa í bæjarráði áttu með fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, funduðu í morgun með bæjarráði Ísafjarðarbæjar um atvinnumál á Flateyri eftir að fiskvinnslan Eyraroddi varð gjaldþrota. Einnig heimsóttu þeir Flateyri.

„Við ræddum mjög almennt um vandann og ýmsar aðgerðir til að mæta honum. Annars vegar aðgerðir til skamms tíma sem miðast við að bregðast við því ástandi sem skapast hefur á Flateyri eftir gjaldþrot fiskvinnslunnar. Þar voru menn sammála um að hlúa þyrfti að stoðkerfinu á meðan fólk er án atvinnu og gæta að því að hlutir á borð við ráðgjöf og endurmenntun standi fólki til boða,“ segir Daníel í samtali við Bæjarins besta.

Fréttavefur Bæjarins besta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert