Nafn Íslands notað í svindli

Sebastian Minsterman í viðtali við WTKR sjónvarpsstöðina.
Sebastian Minsterman í viðtali við WTKR sjónvarpsstöðina.

Rúmlega áttræður karlmaður í Virginia Beach í Bandaríkjunum varð fórnarlamb svikahrappa, sem notuðu nafn Íslands í svikamyllunni. Sjónvarpsstöðin WTKR sagði frá svindlinu sem er vel þekkt og byggist á því að fólk fær sendar tilkynningar um að það hafi unnið stóra vinninginn í lottói.   

Sebastian Minsterman fékk í september bréf frá MTA Sweepstakes Lottery  þar sem honum var tilkynnt, að hann hefði unnið 980 þúsund dali, nærri  115 milljónir króna. Þegar Minsterman hringdi til að spyrjast fyrir um vinninginn var honum sagt, að hann yrði að fara til Íslands til að sækja hann.

Þar sem Minsterman er 81 árs treysti hann sér ekki í langferð. Honum var þá sagt, að ef hann greiddi 1685 dali í flutningsgjald fengi hann ávísunina senda. Nokkrum vikum síðar var Minsterman tilkynnt að stjórnvöld á Íslandi og Ekvador myndu innheimta skatta af vinningnum. Sá sem Minsterman var í sambandi við hjá MTA Sweepstakes Lottery  sagðist vita að hann gæti ekki útvegað peningana strax og bauðst því til að lána honum helminginn. 

Skömmu síðar fékk Minsterman bréf þar sem honum var tilkynnt, að umboðsmaður hans hjá MTA Sweepstakes Lottery hefði látist og maki umboðsmannsins ætti nú lánið sem hann hefði veitt. Nú fóru að renna tvær grímur á Minsterman og hann sagði félaginu að hann kærði sig ekki lengur um vinninginn og hann vildi fá peningana sína aftur.  

Minsterman greiddi svikahröppunum alls um 85 þúsund dali. Lögreglan í Virginia Beach og bandaríska alríkislögreglan FBI rannsaka málið.  

Frétt bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert