Heill á húfi á Eyjafjallajökli

Eyjafjallajökull.
Eyjafjallajökull. rax

Þýskur ferðamaður, sem varð viðskila við félaga sína á austanverðum Eyjafjallajökli í fyrradag, fannst heill á húfi í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá Baldri Ólafssyni, í svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 16, þar sem maðurinn fannst, var hann í ótrúlega góðu ástandi. „Hann var settur á sleða og tekinn beint inn í snjóbíl,“ sagði Baldur í samtali við mbl.is.

Maðurinn fannst rétt við topp fjallsins, skammt frá þeim stað þar sem hann varð viðskila við félaga sína.

„Við gátum miðað út símann hans og hann var 183 metra frá þeim punkti sem við miðuðum við. Þarna er mjög vont veður, snjókoma og skafrenningur þannig að þetta var ótrúleg heppni.“

Að sögn Baldurs verður maðurinn kominn til byggða á milli klukkan 9 og 10 og fer þá í gegnum ítarlega læknisskoðun. „Hann var mjög vel búinn og í  góðu ástandi.“ 

Um 150 manna lið björgunarsveitarmanna leitaði mannsins í gærkvöldi og fram á morgun.

Maðurinn var á göngu með tveimur félögum sínum er hann varð viðskila við þá um fimmleytið í fyrradag. Mennirnir munu vera þaulvanir fjallamenn.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert