Fréttaskýring: Héraðsdómur að drukkna í málum

Miklar annir eru nú í Héraðsdómi Reykjavíkur eins og sést …
Miklar annir eru nú í Héraðsdómi Reykjavíkur eins og sést á langri málaskránni. Á miðvikudag voru 73 mál á dagskrá dómsins. mbl.is/Kristinn

Auknar annir hjá dómstólum í kjölfar bankahrunsins eru nánast eingöngu bundnar við Héraðsdóm Reykjavíkur eins og er. Til dæmis um þetta voru 73 mál á dagskránni þar á miðvikudag. Fyrirséð er að þetta álag muni aukast verulega þegar mál frá sérstökum saksóknara taka að berast.

Héraðsdómurum var fjölgað um fimm árið 2009 og fyrir Alþingi liggur frumvarp um tímabundna fjölgun um aðra fimm en það hefur enn ekki verið samþykkt. Óljóst er þó hvort það nægir til að komast yfir þann málafjölda sem væntanlegur er.

Helgi I. Jónsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir það rétt að dagskráin sé þéttskipuð þessa dagana, álagið sé mikið og það muni aukast á næstu misserum. Um fimm hundruð mál sem tengjast þrotabúum fallinna fjármálastofnanna, þá sérstaklega stóru bankanna, séu nú á ýmsum stigum málsmeðferðar og alls hafi á sjöunda hundrað slíkra mála borist héraðsdómi frá árinu 2009. Þau séu mörg hver umfangsmikil og tímafrek.

Óvíst hvort fjölgun dugi til

Að sögn Helga eru nú fjórir dómarar sem sinna eingöngu slíkum málum. „Þetta er náttúrulega ekki nægjanlegur fjöldi dómara til að ráða við þetta svo vel sé,“ segir hann. Við fjölgun héraðsdómara árið 2009 hafi þrjú og hálft stöðugildi bæst við hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Helgi segir hins vegar óvíst hvort sú fjölgun sem lögð er fram í frumvarpi sem nú liggi fyrir dugi.

„Það verður að taka þetta skref fyrir skref og sjá til hversu langt þetta fleytir okkur. Málatími hefur lengst. Það tekur lengri tíma að afgreiða mál og jafnframt hefur óloknum málum fjölgað. Það er útlit fyrir að svo haldi áfram. Viðbótardómarafjöldinn hjálpar til við að halda þessu í ásættanlegu horfi en það er alveg óvíst hvort það dugar til.“

Skoða flutning út á land

„Við höldum að það sé líklegt að þetta dugi en það kann að vera að svo verði ekki. Þá munum við þurfa að óska eftir frekari fjölgun,“ segir Símon Sigvaldason, formaður Dómstólaráðs. Á sama tíma og frumvarp um fjölgun dómara liggur fyrir skeri stjórnvöld hins vegar niður hjá dómstólum. „Þetta er mjög einkennileg staða að okkur sé gert að skera niður á sama tíma og við fáum fjárveitingar til þess að fjölga fólki. Það leiðir til þess að við getum kannski ekki ráðið í stöðurnar á þeim tíma sem við ættum, því að þó það fylgi með þeim fjármunir er verið að taka þá af okkur á öðrum stað með niðurskurði.“

Hann segir fjölgun mála vegna bankahrunsins vera nánast eingöngu í Reykjavík og því muni þeir fimm nýju héraðsdómarar sem lagt er til í frumvarpi um fjölgun dómara allir koma til starfa þar. Samhliða fjölguninni sé Dómstólaráð að kanna möguleikann á því að færa mál út frá Héraðsdómi Reykjavíkur á aðra staði til að bregðast við álaginu í höfuðborginni. Væru það helst málin sem tengjast kröfum í gömlu bankana sem yrði dreift á fleiri dómstóla. „Það er heimild í dómstólalögum um að færa mál milli dómstóla við sérstakar aðstæður. Þegar þeirri vinnu er lokið reikna ég með að þetta verði skoðað af fullri alvöru að fara með eitthvað af þessum málum út á land,“ segir Símon.

Mörg mál væntanleg

Héraðsdómurum fjölgaði tímabundið þann 1. maí árið 2009 um fimm, úr 38 í 43. Nú fyrir jólin stóð til að Alþingi samþykkti frumvarp þar sem kveðið er á um að dómurunum verði enn fjölgað um fimm. Er þar vísað til þess að fyrirsjáanlegt sé að ágreiningsmál frá slitastjórnum vegna krafna í þrotabú, einkum þrotabú fjármálafyrirtækja, muni verða mikil að umfangi og berast héraðsdómi hratt.

Að sögn Helga I. Jónssonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur er gert ráð fyrir sexhundruð nýjum málum af þeim toga í ár. Í málum frá sérstökum saksóknara geti allt að þrír dómarar verið uppteknir við meðferð eins slíks máls í allt að fjóra mánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert