Fráleitt að Ögmundur segi af sér

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Sigurður Bogi Sævarsson

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir algerlega fráleita þá kröfu sem heyrst hefur að innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni beri að segja af sér vegna stjórnlagaþingskosninganna.   „Þegar málinu er beint með þessum hætti að innanríkisráðherra eru menn greinilega ekki með yfirsýn yfir allt málið," segir Jón.

„Staðreyndin er að forræði stjórnlagaþingsins og lagasetning þess var ekki á forræði dómsmálaráðuneytis og niðurstaða hæstaréttar snýr fyrst og fremst að göllum í sjálfri lagasetningunni fremur en framkvæmd kosninganna. Þá skiptir líka máli að sá sem nú situr sem innanríkisráðherra kom ekki að ráðuneytinu fyrr en alveg á lokastigi framkvæmdar kosninganna en hefur nú í eftirleiknum staðið í eldlínunni. Það að krefjast afsagnar Ögmundar Jónassonar minnir þess vegna svolítið á þá tilhneigingu sem jafnan er til að skjóta sendiboða válegra tíðinda."

Jón segist ekki vilja kveða upp neina úrskurði um hvaða leiðir eigi nú að fara, en bendir á grein Ara Teitssonar stjórnlagaþingsmanns í Fréttablaðinu í dag. „Ég get alveg tekið undir með Þingeyingnum Ara sem var einn örfárra landsbyggðarmanna sem náði kosningu. Það þarf að horfa á fleiri jafnræðisþætti en kynjakvóta. Reynslan af þessari kosningu, þar sem að landið var eitt kjördæmi, var að við fengum að mörgu leyti einsleitan hóp og ef til þarf að haga öllum kosningum þannig að þær séu landshlutabundnar," segir Jón Bjarnason.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert