Töpuðu stórfé í eignastýringu

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá fjórum skaðabótamálum, sem höfðuð voru gegn Arion banka vegna fjármuna sem glötuðust í fjár- og eignastýringu hjá bankanum og  Kaupþingi áður. Um er að ræða fjárhæðir sem nema samtals yfir 150 milljónum króna.

Þrjú málanna voru höfðuð af einstaklingum, þar af eiga öldruð hjón og sonur þeirra aðild að tveimur málanna, en það fjórða af félagi. Fram kemur í úrskurðum héraðsdóms, að fólkið og forsvarsmenn félagins hafi gert fjárvörslu- og eignastýringarsamninga við Kaupþing og í þremur málanna heimilað bankanum að fjárfesta að einhverju marki í óskráðum skuldabréfum.

Eftir bankahrunið haustið 2008 tók Arion banki við umræddum samningum. Í málunum fjórum kemur síðan fram, að í lok nóvember 2009 hafi birst fréttir um það í fjölmiðlum að starfsmanni bankans hefði verið vikið frá störfum og hann kærður til lögreglu vegna gruns um fjárdrátt og önnur auðgunarbrot.

Í byrjun desember segist fólkið síðan hafa verið boðað á fund í bankanum þar sem upplýst hafi verið, að umræddur starfsmaður væri sá sem hefði annast stýringu á eignum þeirra. Upp hefði komist að starfsmaðurinn hefði brotið gróflega gegn umsaminni fjárfestingarstefnu eignastýringarsamninganna með stórfelldum kaupum á skuldabréfum af óskráðum félögum. Umrædd félög væru ógjaldfær og sömuleiðis þeir aðilar sem tóku sjálfskuldarábyrgð á greiðslu bréfanna á sínar herðar. Umrædd skuldabréf væru því verðlaus, þau hefðu verið í vanskilum í langan tíma og engin tilraun verið gerð á þeim tíma til að innheimta þau.

Þau sem höfðuðu málin segja, að af hálfu bankans hafi verið viðurkennt að eftirlit með því hvort starfsmenn hans fylgdu umsaminni fjárfestingarstefnu hafi verið lítið sem ekkert. Því hafi farið sem fór. Einnig hafi verið viðurkennt af hálfu bankans að háttsemi starfsmannsins hlyti að falla undir það að vera bæði saknæm og ólögmæt og jafnframt bótaskyld. Hins vegar hafi komið fram hjá bankanum, að þrátt fyrir að Arion banki hafi í október 2008 yfirtekið þá vörslu- og eignastýringarsamninga sem liggi til grundvallar viðskiptunum myndi bankinn ekki taka ábyrgð á því tjóni sem þó væri viðurkennt að hefði átt sér stað. Þetta sætti fólkið sig ekki við og höfðaði skaðabótamál.

Héraðsdómur segir í niðurstöðum sínum, sem Hæstiréttur staðfesti, að bótagrundvöllur sé vanreifaður og því beri að vísa málunum frá. Umrædd viðskipti hafi farið fram frá árinu 2001 til 2009 og stefnendur geri  enga grein fyrir því tjóni sem þeir telji sig hafa orðið fyrir. Þá geri þeir enga grein fyrir því í hverju hin meintu brot starfsmanns bankans hafi verið fólgin og reifi ekki tengsl athafna eða athafnaleysis starfsmannsins við meint tjón eða útskýri hvernig vanræksla og eftirlitsleysi bankans tengist meintu tjóni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert