Ekki fráleitt að skipa stjórnlagaþing

Fundurinn með Ögmundi lauk laust fyrir kl. 17 í dag.
Fundurinn með Ögmundi lauk laust fyrir kl. 17 í dag. mbl.is/Ómar

Ómar Ragnarsson segist ekki telja fráleitt að þeir sem upphaflega voru kosnir til setu á stjórnlagaþing verði með ákvörðun Alþingis skipaðir til setu á þinginu þar sem Hæstiréttur hafi gert athugasemd við umgjörð kosninganna en ekki talninguna sjálfa. Stjórnvöld verði hins vegar að ákveða framhaldið.

Ómar sat í dag fund með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra þar sem rætt var um ákvörðun Hæstaréttar, að ógilda kosningu til stjórnlagaþings.

„Auðvitað vildum við helst að kosningin yrði endurtekin, en það er líka uppi önnur hugmynd sem er ódýrari og sem er ekki fráleitt vegna þess að Hæstiréttur felldi úrskurð um umgjörð kosninga en ekki úrskurð um að nokkur atkvæði hafi verið vitlaust talin. Það þýðir að það er ekkert sem liggur fyrir um það að nokkurt okkar hafi ekki fengið atkvæðin sem okkur var úthlutað. Þar af leiðandi útilokum við ekki fyrirfram neinn möguleika. Alþingi og stjórnvöldum verða hins vegar að bera ábyrgð á því hvernig unnið er úr þessari stöðu.“

Ómar sagði að þeir sem kjörnir voru á stjórnlagaþing legðu ekki fram neina tillögu til stjórnvalda um næstu skref í málinu. „Við teljum okkur vera þolendur og við eigum ekki að vera gerendur.“

Ómar sagði aðspurður um kostnað sem frambjóðendur til stjórnlagaþing lögðu í vegna kosninganna. Hann sagði að innanríkisráðherra hefði verið gerð grein fyrir að þetta væri eitt þeirra atriða sem þyrfti að skoða. „Þetta er hins vegar algert aukaatriði í okkar huga miðað við að hér verði lýðræðisumbætur og betri stjórnarskrá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert