Segir leið Jóhönnu leiða til gjaldþrota í sjávarútvegi

Björn Valur Gíslason með Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG.
Björn Valur Gíslason með Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Björn Valur Gíslason, alþingismaður VG, segir að sú leið Samfylkingarinnar að innkalla fiskveiðiheimildir „muni leiða til mikillar upplausnar og gjaldþrota í sjávarútvegi og valda miklum usla í íslensku efnahagslífi.“

Björn Valur segir á blogg-síðu sinni, að það sé orðin venja hjá forsætisráðherra að hnýta í samstarfsfólk sitt í ríkisstjórn. „Ég geri mér hinsvegar grein fyrir því að svona málflutningur er meira ætlaður til heimabrúks en annars svo ég læt það ekki pirra mig að neinu marki.“

Björn Valur gagnrýnir ályktun flokksstjórnar Samfylkingarinnar um sjávarútvegsmál: „Sjálfur hélt ég að ný fiskveiðistjórn yrði mótuð á þeim niðurstöðum sem Sáttanefnd ríkisstjórnarinnar komst að á síðasta ári enda var það markmið hennar að móta tillögur í þeim efnum. Í bókun fulltrúa stjórnarflokkanna í þeirri nefnd kemur fram að ekki hafi verið stuðningur við það í nefndinni að fara þá leið sem Samfylkingin leggur til að kosið verði um í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þau gögn sem nefndin aflaði sér um málið benda til þess að innköllunarleið Samfylkingarinnar muni leiða til mikillar upplausnar og gjaldþrota í sjávarútvegi og valda miklum usla í íslensku efnahagslífi. Fulltrúar stjórnarflokkana leggja því til að farin verði önnur og tryggari leið að sama marki sem skapi sjávarútveginum góðan rekstrargrunn til langs tíma gegn tilteknum ströngum skilyrðum og gjaldi fyrir nýtingarréttinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert