Vill verja rétt til að stunda sjálfbærar hvalveiðar

Morgunblaðið/Ómar

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, sagði á Alþingi í dag að það sé ákvörðun Íslendinga hvort þeir veiði hval eða ekki, en stjórnvöld vilji verja þann grundvallarrétt, að geta nýtt auðlindir með sjálfbærum hætti og versla með afurðir sem falla til við slíka nýtingu.

Þetta kom fram í umræðum á Alþingi um fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem vildi vita hvort sjávarútvegsráðherra ætlaði að bregðast við kröfum nokkurra aðildarríkja Evrópusambandsins um að banna hvalveiðar í ljósi viðræðna um aðild Íslands að sambandinu.

Jón sagði viðbúið að krafa um bann við hvalveiðum og viðskiptum með hvalaafurðir verði sett fram í viðræðum Íslands um hugsanlega aðild að ESB.  Ekki væri ástæða til að bregðast á nokkurn hátt við slíkum kröfum og farið verði í þessum efnum sem öðrum að vilja Alþingis. Þingið hefði lýst vilja til að stunda hvalveiðar með sjálfbærum hætti. 

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Íslendingum muni ekki lengi haldast uppi, að stunda iðnaðarveiðar á hvölum við landið enda sé um alþjóðlega stofna að ræða. Þá sé ljóst, að erfitt yrði fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið og halda jafnframt áfram slíkum veiðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert