Flaggað í hálfa á St. Jósefsspítala

Starfsmenn St. Jósefsspítala stilltu sér upp til myndatöku fyrir utan …
Starfsmenn St. Jósefsspítala stilltu sér upp til myndatöku fyrir utan spítalann í dag, þar sem flaggað hefur verið í hálfa stöng vegna sameiningarinnar. mbl.is/Rax

Starfsfólk St. Jósefsspítala í Hafnarfirði flaggaði í hálfa stöng fyrir utan spítalann í morgun og hefur einnig gengið með sorgarbönd og -slaufur. Tilefnið er sameiningin við Landspítalann, sem mikil óánægja er með. Á vef spítalans er frétt um sameininguna með fyrirsögninni „Sorgardagur í sögu St. Jósefsspítala".

Starfsmannafundur er í dag með stjórnendum Landspítalans, þar sem kynna á nánar sameininguna og hvernig að henni verður staðið. Um 115 starfsmenn í 80 stöðugildum starfa við St. Jósefsspítala og er þeim öllum boðin önnur eða sömu störf, en í mörgum tilvikum á öðrum vinnustöðum Landspítalans. 

Annar starfsmannafundur var í gær þar sem greint var frá sameiningunni. Um þetta segir m.a. á vef spítalans:

„Í gær var síðasti starfsmannafundur spítala St Jósefssystra í Hafnarfirði. Margir slíkir fundir hafa verið haldnir í kirkjusalnum og hafa þeir verið þrungnir reiði, vonbrigðum og vantrú að þetta væri í raun alls ekki að gerast heldur væri þetta aðeins draumur sem við mundum síðan vakna upp við og allt mundi ganga aftur eins og áður, og rísa enn hærra með enn betur mótuð markmið og samhæfari faglega starfsmenn."

Þar segir ennfremur að mikil hætta sé á að hin faglega vinna, sem unnin hefur verið á St. Jósefsspítala, eins og í sérgreinum kvensjúkdóma, tvístrist þegar hún verður flutt af spítalanum.

„Allar þessar frábæru sérgreinar munu smám saman hverfa úr þessu húsi og flytjast á Landspítalann eða eitthvað annað og starfsfólk tvístrast.  Hvað verður um þá sjúklinga sem stólað hafa á trygga þjónustu og eftirfylgni á einum stað. Hvert leita þeir í framtíðinni, aðeins tíminn segir til um hvað verður. Því er þetta mikill sorgardagur þegar þessum kapítula lýkur hér á Suðurgötunni í Hafnarfirði,“ segir á vef St. Jósefsspítala.

Skilti hefur verið komið upp við innganginn á spítalanum, með …
Skilti hefur verið komið upp við innganginn á spítalanum, með áletruninni: Stöndum vörð um Jósefsspítala. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert