Mikil vonbrigði

Óli Björn Kárason.
Óli Björn Kárason.

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir á vef sínum að sú afstaða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis að styðja frumvarp um staðfestingu Icesave-samningsins, valdi miklum vonbrigðum.

„Það er mikil ögrun við íslenskan almenning ef meirihluti Alþingis samþykkir hina nýju Icesave-samninga. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hafnaði því í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars á liðnu ári, að ríkissjóður gengist í abyrgð vegna Icesave-skulda Landsbankans. Fyrirliggjandi samningar og frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð, byggja á sömu forsendum og þjóðin hafnaði, þ.e.a.s. að eðlilegt teljist að íslenskir skattgreiðendur beri ábyrgð á starfsemi einkabanka í öðrum löndum," segir Óli Björn meðal annars.

Andrés Magnússon, blaðamaður, lýsti því yfir á Facebook-síðu sinni í dag, að hann hefði sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum í dag eftir 30 ára samfylgd. Segir hann að afstaða flokksins í Icesave-málinu séu svik og Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið svo hrapallega af leið að leiðir skilji.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert