Icesave-frumvarp samþykkt

Frumvarp sem heimilar fjármálaráðherra að staðfesta Icesave-samning, var samþykkt eftir …
Frumvarp sem heimilar fjármálaráðherra að staðfesta Icesave-samning, var samþykkt eftir 2. umræðu á Alþingi. mbl.is/Golli

Alþingi samþykkti í dag, með 40 atkvæðum gegn 11, efnisgrein frumvarps um að heimila fjármálaráðherra að staðfesta fyrirliggjandi samkomulag við Breta og Hollendinga um Icesave. Sex þingmenn sátu hjá. Málið fer nú til 3. umræðu á Alþingi.

Þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna samþykktu frumvarpið auk 9 þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður flokksins, greiddi hins vegar atkvæði á móti frumvarpinu. Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur Blöndan og Sigurður Kári Kristjánsson, sátu hjá og vísuðu m.a. til þess að málið ætti eftir að fá frekari meðferð í þinginu. Þeir myndu taka endanlega afstöðu við lokaafgreiðslu málsins. 

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var einn þeirra sem samþykkti frumvarpið. Hann sagði að Íslendingar stæðu frammi fyrir afarkostum í málinu og sá kostur væri betri að segja já. Það tryggði fremur farsæld þjóðarinnar inn í framtíðina. 

Þingmenn Framsóknarflokksins, utan Siv Friðleifsdóttur og Guðmundur Steingrímsson, greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en Siv og Guðmundur sátu hjá. Þá greiddu þingmenn Hreyfingarinnar atkvæði á móti.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar þingsins, sagði við atkvæðagreiðsluna, að miklir hagsmunir Íslands væru í því fólgnir að leysa Icesave-deiluna með því samkomulagi sem nú lægi fyrir. „Ég fagna því að lausn sé í sjónmáli og í ljósi umræðunnar væntanlega með breiðum stuðningi stærsta hluta þingmanna," sagði hún.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði hins vegar, að ekki ætti að vera hægt að gera milliríkjasamninga á borð við þann, sem gerður var um Icesave við Breta og Hollendinga því hann fæli í sér að verið sé að breyta kröfum í skuldir sem óljóst væri hverjar séu og engin lagastoð sé fyrir. „En ætli menn sér að undirrita óútfylltan tékka fyrir hönd almennings ættu þeir ekki að geta gert það án þess að biðja almenning fyrst um leyfi," sagði hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert