Lófaklapp í lok ræðu Bjarna

Fundargestir klöppuðu fyrir Bjarna í lok ræðunnar.
Fundargestir klöppuðu fyrir Bjarna í lok ræðunnar. mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lokið máli sínu, þar sem hann fjallaði um Icesave og sína afstöðu í málinu. Var honum klappað lof í lófa í Valhöll. Eitthvað var þó um baul. Bjarni segist vilja breyta rétt og ná skynsamlegri niðurstöðu í Icesave sem sé þjóðinni til heilla.

Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ávallt verið hið ábyrga afl í íslenskum stjórnmálum. Hann njóti trausts vegna þessarar afstöðu.

Bjarni sagði ljóst, að traust til stjórnmálaflokka hafi glatast í hruninu. Menn vinni aftur traust með því að taka ábyrga afstöðu í málum  sem varða þjóðina.

Hann segir að menn breyti ekki rétt rétt með því að treysta á sundrunguna á stjórnarheimilinu. Flokkurinn geti ekki treyst á að jafn alvarlegt mál sem þetta snúist um hvernig staðan sé á stjórnarheimilinu.

Flokknum hafi farnast best þegar hann hafi staðið fast á rétti sínum. Bestu niðurstöður hafi komið í hús þegar flokkurinn hefur hvergi gefið eftir. Þetta þýði hins vegar ekki að það sé ekki hægt að gera samkomulag  af nokkrum toga.

Bjarni segist vita að þjóðin muni fagna þessari farsælu lausn. Hroðalegustu svikin séu þau að svíkjast um að semja.

Bjarni segist ekki taka þátt í pólitískum hráskinnaleik og varpi ekki fyrir róða heilindum og framtíðarsýn í glímunni við ríkisstjórnina. Var Bjarna klappað lof í lófa, eftir að hann lét þessi ummæli falla.  

Sagði hann að þessir nýju samningar létti byrðina verulega. Með þá í farteskinu sé Íslendingum óhætt að horfast í augu við framtíðina óttalaust. Hann vilji binda enda á óvissuna og leiða málið til lykta. Annað séu svik við samvisku og sannfæringu og kjósendur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert