Fréttaskýring: „Sætti mig við þessi málalok“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fór ítarlega yfir stöðu mála á …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fór ítarlega yfir stöðu mála á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn

„Flokkurinn er ekki dauður,“ sagði Friðrik Sophusson fundarstjóri við upphaf fundar sem formaður Sjálfstæðisflokksins boðaði til í Valhöll í dag til að ræða Icesave og afstöðu flokksforystunnar til málsins. Með ummælunum vísaði Friðrik til þess fjölmennis sem var samankomið til að hlýða á Bjarna.

Rúmlega 500 mættu til fundarins, sem Bjarni Benediktsson boðaði til í gær. Hann vildi með fundinum skýra afstöðu sína til málsins, og hvers vegna hann hafi tekið ákvörðun um að styðja Icesave-frumvarpið. Mikil ólga hefur verið á meðal sjálfstæðismanna vegna afstöðu forystumanna Sjálfstæðisflokksins, og hafa margir gagnrýnt þá harðlega.

Finnur fyrir miklum stuðningi

„Ég var mjög sáttur við fundinn, bæði við mætinguna og undirtektina hér á fundinum. Ég skynjaði mikla samstöðu og eindrægni hér meðal allra fundarmanna. Ég hef reyndar fundið fyrir miklum stuðningi undanfarna daga, en hún birtist mér síðan hér með mjög áberandi hætti,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is að loknum fundi.

„Mér fannst gott að fá tækifæri til að ræða við fundarmenn um þær áhyggjur sem þeir hafa vegna samninganna, vegna þess að það fylgir ákveðin áhætta að gangast undir þessar skuldbindingar,“ segir Bjarni.

Hann tekur fram að í nýja samkomulaginu séu málsaðilar að deila með sér byrðum „þó að áhættuþættirnir séu mest á okkar reikning.“ Hann segir að Íslendingar séu hvorki undir neinum þvingunum né hótunum.

„Þetta er ískalt mat á því hvort það þjóni okkar hagsmunum best að fara með málið alla leið fyrir dómstóla, þar sem ákveðnar líkur eru á því að illa geti farið - það er ekki á vísan að róa með eitt eða neitt þar - eða hvort betra sé að ljúka málinu. Og ég tel að það sé komin fram niðurstaða sem ríkisstjórnin getur sannanlega ekki eignað sér neina hlutdeild í, heldur þvert á móti þjóðin. Og við höfum stutt það samningaferli sem hefur leitt til þessarar niðurstöðu og ég sætti mig við þessi málalok.“

Fjölmargar fyrirspurnir

Bjarni fór ítarlega yfir málið og svaraði fjölmörgum fyrirspurnum á fundinum, sem stóð yfir í tæpar tvær klukkustundir. Bjarni benti m.a. að nýja samkomulagið sé allt annað og mun betra heldur en fyrra samkomulag, sem ríkisstjórnin reyndi á sínum tíma að fá í gegn.

Bjarni sagði að mikil óvissa og áhætta væri samfara því að fara dómstólaleiðina. Að sínu mati væri það farsælast fyrir þjóðina til lengri tíma litið að samþykkja núverandi Icesave-frumvarp og ljúka málinu í eitt skipti fyrir öll. 

Ekki er hægt að segja að þetta hafi verið mikill hitafundur, en menn lágu hins vegar ekkert á skoðunum sínum og þeir sem voru Bjarna ósammála kröfðu hann svara og sendu sumir honum tóninn, og nokkrum sinnum mátti greina baul.

A.m.k. einn fundargesta krafðist þess að Bjarni segði af sér sem formaður flokksins. Annar óskaði eftir því að fá að melta niðurstöðuna á meðan enn annar kvartaði undan því að hafa ekki fengið tækifæri til að ræða við flokksforystuna fyrr um ákvörðun hennar að samþykkja Icesave.

Einn fundargesta hafði það á orði að sér hefði brugðið við að heyra þessi tíðindi, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn myndi greiða atkvæði með Icesave á þinginu. Hann sagði hins vegar að hann virti afstöðu Bjarna og forystunnar í málinu, þó að hann væri henni ósammála. Svo virðist sem að fleiri hafi deilt þessari skoðun, en margir klöppuðu fyrir Bjarna og sýndu honum þannig stuðning í verki.

Meðal þeirra sem hafa lýst stuðningi við Bjarna eru Geir H. Haarde og Þorsteinn Pálsson, sem báðir eru fyrrverandi forsætisráðherrar og formenn Sjálfstæðisflokksins.

Útilokar ekki þjóðaratkvæðagreiðslu en segir meiri samstöðu á þinginu

Margar fyrirspurnir bárust Bjarna um afstöðu hans til þess að láta Icesave-frumvarpið fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á fundinum tók hann fram að hann útiloki ekki neitt.

„Það sem mér finnst blasa við er það er á margan hátt aðrar aðstæður núna heldur en voru síðast þegar málið var í þinginu. Í fyrsta lagi er ekki verið að stefna efnahagslegu sjálfstæði okkar í voða. Í öðru lagi er ekki uppi sama háværa krafan í þjóðfélaginu um að málið fari til hennar. Í þriðja lagi er meiri samstaða um þetta mál á Alþingi heldur en verið hefur. Þannig að mér finnst ekki jafn sterk rök fyrir því, núna eins og þá. Ég ætla samt ekki að útiloka það. Ég ætla að gefa mér tíma til að hugleiða það,“ sagði Bjarni þegar mbl.is spurði hann nánar út í málið að fundinum loknum.

Nýtt samkomulag þjóðinni að þakka

„Það urðu þáttaskil í meðhöndlun þess ágreinings sem uppi hefur verið við Breta og Hollendinga frá því um haustið 2008, með þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fór fram 6. mars sl. Þá reis þjóðin upp gegn þeim ósanngjörnu samningum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, með Steingrím J. Sigfússon í fararbroddi, hafði samþykkt á Alþingi, forsetinn synjað staðfestingar og hafnaði þeim. Í þeim samningum var í öllum grundvallaratriðum fallist á kröfur viðsemjenda okkar og sú sterka staða sem við höfðum á grundvelli laga og stöðu okkar sem fullvalda þjóðar gefin eftir,“ sagði Bjarni í upphafi ræðu sinnar í dag, og sló hvergi slöku við í gagnrýni sinni á stjórnvöld. 

Hann sagði að það væri afar mikilvægt að muna að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hefðu engan rétt til þess að eigna sér þá niðurstöðu sem nú lægi fyrir þinginu. Þetta væri niðurstaða íslensku þjóðarinnar. Stjórnvöld gætu ekki skotið sér undan ábyrgð á fyrri samningum.

Bjarni sagði hins vegar að málið væri ekki hluti af pólitískum hráskinnaleik „þar sem menn eru tilbúnir að varpa fyrir róða heilindum og framtíðarsýn fyrir skammtíma ávinning í glímunni við ríkisstjórnina,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

„Nýju samningarnir hafa náð að létta byrðarnar verulega. Með hag íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi tel ég rétt að binda enda á óvissuna sem ríkt hefur um þetta mál og leiða það til lykta með samningum. Annað væru svik við samvisku mína, sannfæringu og skuldbindingu gagnvart kjósendum. Ég heiti á ykkar stuðning,“ voru lokaorð Bjarna, og var honum klappað lof í lófa í lokin.

Metur stöðu sína góða

Spurður hvernig hann meti sína stöðu sem formanns flokksins segir Bjarni: „Ég met hana mjög góða. Ég geri mér grein fyrir því að í minni stöðu þá er öruggasta leiðin til þess að mistakast sú að reyna að þóknast öllum. Og ég vissi það fyrirfram að það yrðu ekki allir á eitt sáttir, en ég vona að þær skýringar og svör sem ég hef gefið hér í dag ýti undir frekari stuðning við málið heldur en hefur birst í fjölmiðlum að undanförnu.“

Rúmlega 500 manns sóttu fundinn í Valhöll.
Rúmlega 500 manns sóttu fundinn í Valhöll. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert