Tilbúinn að mynda nýja ríkisstjórn um atvinnumálin

Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Sigmundur Ernir Rúnarsson. mbl.is/Ómar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segist vera reiðubúinn að mynda ríkisstjórn með nýjum flokkum sé það þjóðinni til framdráttar. Hann segir að það sé óþolandi að starfa með flokki sem segist ekki lengur kannast við stjórnarsáttmála sem hann skrifaði undir fyrir aðeins fáeinum mánuðum.

Þetta sagði Sigmundur Ernir í þættinum Silfri Egils, sem er sýndur í Ríkissjónvarpinu. 

„Við erum að kljást við gríðarleg vandamál við að endurreisa samfélagið. Og mér finnst ekki öllu máli skipta hvaða flokkar séu saman. Mér finnst fara betur á því að vinna saman heldur en að vera í sundrungu og sundurlyndi. Meginverkefni stjórnvalda núna er að koma atvinnulífinu af stað. Ég bara tala fyrir því að þeir flokkar sem geta með mestum og bestum hætti komið atvinnulífinu af stað, að þeir taki höndum saman,“ sagði hann. 

Spurður hvort hann væri að biðla til Sjálfstæðisflokksins sagði Sigmundur Ernir: „Ég er að biðla til þeirra flokka sem geta mest og best komið af stað atvinnulífinu og við megum ekki koma í veg fyrir að meginverkefnið komist af stað. Ég er í samvinnu við stjórnmálaflokk sem skrifaði fyrir fáeinum mánuðum undir stjórnarsáttamála sem hann kannast ekki lengur við. Og mér finnst það óþolandi í mannlegum samskiptum. Þannig að ég er alveg tilbúinn til að leiða hér saman nýja flokka í nýrri ríkisstjórn ef það er þjóðinni til framdráttar,“ sagði Sigmundur Ernir.

„Enginn díll í gangi“

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem einnig var gestur í þættinum, sagði „enginn díll“ væri í gangi á milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

„Við höfum engan áhuga á því að fara með þessum flokkum í ríkisstjórn. Engan áhuga. Það sem við höfum fyrst og fremst áhuga á er að hér verði kosningar. Valdajafnvægið í þinginu er rangt og valdajafnvægið í þinginu, sem varð fyrir sögulegar orsakir, hefur leitt yfir okkur mikla ógæfu, sem birtist í því að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa verið lækkaðar með skattlagningu. Það hefur verið algjört úrræðaleysi í endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja. Menn delera hérna, tala um þjóðnýtingu og annað slík. Ísland er að breytast í Alþýðulýðveldið Ísland, og það er undir stjórn þessara tveggja flokka. Að láta sér detta það í hug að við höfum einhvern áhuga á að vinna með þessu fólki, það er algjör misskilningur. En við viljum kosningar,“ segir Tryggvi Þór.

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson. mbl.is/Valdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert