„Sömu lög gilda fyrir Flóahrepp og fyrir aðra“

Aðalskipulagið gerir ráð fyrir virkjunum í neðri hluta Þjórsár.
Aðalskipulagið gerir ráð fyrir virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Rax / Ragnar Axelsson

„Það er eiginlega með ólíkindum að skuli þurfa að sækja það til Hæstaréttar að sömu lög eigi að gilda fyrir Flóahrepp og aðra í landinu,“ sagði Aðalsteinn Sveinsson, oddviti Flóahrepps, en umhverfisráðherra tapaði í dag máli sem snerist um staðfestingu á aðalskipulagi Flóahrepps.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að það sé komin niðurstaða í málið. Það sem hefur fyrst og fremst valdið okkur tjóni er allur sá tími sem hefur farið í þennan málarekstur,“ sagði Aðalsteinn.

Málið er búið að eiga sér langan aðdraganda, en Flóahreppur samþykkti aðalskipulag sveitarfélagsins í lok árs 2008 og Skipulagsstofnun staðfesti það stuttu síðar. Málið fór síðan til Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem neitaði, um ári síðar, að staðfesta skipulagið. Flóahreppur höfðaði þá mál fyrir Héraðsdómi Suðurlands til þess að fá þessari ákvörðun hrundið. Ríkið krafðist þess að málinu yrði vísað frá. Því var hafnað og héraðsdómur dæmdi síðan Flóahreppi í vil. Ríkið ákvað að áfrýja málinu til Hæstaréttar sem nú hefur komist að sömu niðurstöðu.

Aðalskipulagið gerir ráð fyrir virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Tekist hefur verið á um þessar virkjanir og áður en málið fór til dómstóla hafði samgönguráðuneytið úrskurðað að ein grein samkomulags sem sveitarfélagið gerði við Landsvirkjun samræmdist ekki lögum. Sveitarfélagið var ósammála þessari niðurstöðu en ákvað að fella þessa grein úr gildi til að tefja ekki málið. Þrátt fyrir þessa ákvörðun ákvað umhverfisráðherra að neita að staðfesta aðalskipulagið á þeirri forsendu að þessi grein hefði verið í samkomulagi hreppsins við Landsvirkjun. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að í þessari grein samkomulagsins hefði ekki falist neitt lögbrot.

Aðalsteinn sagðist eiga eftir að ræða betur við lögfræðing sveitarfélagsins um næstu skref í málinu, en hann sæi ekki betur en að umhverfisráðherra yrði að staðfesta aðalskipulagið. Hann sagðist bíða eftir að heyra frá ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert