Afsökun vegna fréttar - Sættir takast

Mánudaginn 31. janúar sl. birtust frétt og fréttaskýring Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu vegna svokallaðra tölvumála, þ.e. annars vegar um tölvu sem komið var fyrir á skrifstofum Alþingis og hins vegar um birtingu DV á gögnum sem stolið var úr tölvu lögmanns Milestone.

Í Morgunblaðinu var sagt að blaðamaðurinn sem fjallaði um síðarnefnda málið í DV, Ingi Freyr Vilhjálmsson, hefði réttarstöðu grunaðs manns í rannsóknum lögreglu í báðum málunum. Í ljós kom að þessar staðhæfingar um réttarstöðu blaðamannsins voru rangar og var Ingi Freyr í kjölfarið beðinn velvirðingar á þeim rangfærslum.

Í fréttaskýringunni var því einnig haldið fram að ungur piltur sem kærður var til lögreglu í febrúar í fyrra fyrir að hafa brotist inn í tölvu lögmanns Milestone og stolið þaðan umræddum gögnum hefði gert það að undirlagi Inga Freys og þegið greiðslur frá honum fyrir að stela gögnunum. Þær fullyrðingar í fréttaskýringunni voru ekki réttar. Er Ingi Freyr því einnig beðinn afsökunar á þeim.

Aðilar hafa nú gert með sér sátt í meiðyrðamáli sem Ingi Freyr höfðaði. Málið hefur verið fellt niður og verða ekki hafðar uppi frekari kröfur í því sambandi. Sáttin felur meðal annars í sér ofangreinda afsökunarbeiðni. Annað efni sáttarinnar er trúnaðarmál.

Ritstj.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert