Maria Amelie þakkar Íslendingum stuðninginn

Madina Salamova sem er þekkt undir höfundarnafninu Maria Amelie í …
Madina Salamova sem er þekkt undir höfundarnafninu Maria Amelie í Noregi.

Maria Amelie, norski rithöfundurinn sem vísað var úr landi á dögunum, segist þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur fengið frá Íslandi. Hún segist gera sér grein fyrir að erfitt geti reynst að fá tillögu um ríkisborgararétt samþykkta á Alþingi. „en hugsunin á bak við skiptir mestu og vonin færir fólki líf,“ bloggar Amelie.

Amelie er ættuð frá Rússlandi og fluttist með foreldrum sínum til Finnlands og Noregs þar sem hún bjó sem ólöglegur innflytjandi í níu ár. Hún skrifaði bók um það hvernig er að vera ólöglegur innflytjandi í Noregi. Bókin vakti mikla athygli og Amelie var valinn Norðmaður ársins á síðasta ári.

Viðtal við Amelie birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem hún segir m.a. frá því hvað hún hafi verið að fást við eftir að hún kom til Moskvu.

Amelie skrifar á bloggsíðu sinni opið bréf til Íslands þar sem hún fjallar um kynni sín af Íslandi. Bréfið birtir hún ánorsku og íslensku.

„Á námsárum mínum í Þrándheimi bjó ég með tveimur stúlkum í stúdentaíbúð sem smám saman varð heimili mitt og þær fjölskylda mín þetta góða tímabil í háskólanum. Önnur þeirra hét Nora og bjuggu foreldrar hennar í Norður-Noregi en hún átti stóra fjölskyldu á Íslandi. Nora bar langt og fallegt íslenskt nafn, hafði blíða rödd og var mjög ljúf og umhyggjusöm.

Noru fannst gaman að baka brauð og borða klementínur. Við vorum vanar að sitja í eldhúsinu og drekka te á meðan teljósin brunnu niður. Nora sagði mér sögur frá Íslandi en ég man oft betur eftir henni en sögunum. «Ísland...» - var hún vön að segja með dreymandi kisuaugnaráði sínu. Það var eitthvað töfrandi við Ísland og ég skynjaði þann galdur í bæði brosi hennar og augnaráði. Hún sýndi mér margar myndir frá ferðum sínum þar og sagði frá fjallaferðum og útreiðartúrum. Hún sagði  að stúlkurnar í Reykjavík væru svo duglegar að halda sér til þótt veðrið væri oft bæði blautt og kalt, hún lýsti frelsinu sem hún fann til á fjöllum og öllu því góða, sérstaka og ærlega fólki sem hún hafði hitt á ferðum sínum. «Þannig er Ísland» hugsaði ég þegar ég horfði á hana og lét mig dreyma um að einhvern tíma myndi ég kannski eignast vegabréf og komast í heimsókn þangað.

Á meðan ég sat í Trandum-fangelsi kom blaðamaður til mín boðum frá móður minni: «Myrkið er alltaf mest rétt fyrir dögun». Ég féll saman og grét því orðin hittu mig í hjartastað. Nokkrum dögum síðar slapp ég úr fangelsinu en ekki leið á löngu uns lögreglan handtók mig á ný og lét flytja mig nauðuga frá Noregi til Moskvu, borgar sem ég hafði ekki komið til í áratug. Þegar ég hafði dvalist í Moskvu í viku í tárvotri angist frétti ég að Íslendingar vildu koma mér til hjálpar með því að leggja fram tillögu á Alþingi um íslenskt ríkisfang mér til handa. Það var ljósglætan sem náði til mín þegar myrkrið var sem mest.

Ég er enn niðurbrotin og þreytt. Hálfs mánaðar andlegt  álag og það að vera handtekin af fimm lögreglumönnum, fangelsuð og rekin úr landi gerir að stundum finnst mér ég vera að missa vitið. Nú er ég að þræla mér í gegnum skriffinnskukerfið í Moskvu og Noregi til þess að mega koma heim á ný. Ég veit enn ekki hvort mér verður vísað brott af Schengen-svæðinu eða hvort ég fæ leyfi til að sækja um dvöl í heimalandi mínu sem erlendur starfsmaður. Helst af öllu vildi ég fá að vera í Noregi. Mig langar til að skrifa, elska, vera með vinum mínum og halda áfram að vinna að þýðingarmiklum verkefnum sem snerta fólk og vekja með því sannar tilfinningar.

Deilan um mál mitt og annarra án skilríkja í Noregi heldur nú áfram án þátttöku minnar. Í augum margra í ríkisstjórninni er ég ekki lengur Maria Amelie, kona af holdi og blóði, heldur mál, pólitískur vandi og glæpsamleg persóna sem fjarlægja þarf af norskri jörð. Það er grimmilegt, ekki síst vegna þess að í bókinni minni er hvorki að finna gagnrýni á stefnu stjórnvalda í málefnum hælisleitenda né landslög. Hún fjallar um það sem mestu skiptir, fólk. Ég sagði frá einstökum hversdagshetjum sem hafa hjálpað mér til þess að lifa og vera hamingjusöm í Noregi, jafnvel þótt ég væri ólöglegur hælisleitandi. Ég skrifaði um fólk sem bar meiri virðingu fyrir friðhelgi einstaklingsins en faglegu réttmæti og um kraftaverk sem ég hafði notið góðs af. Því er það að þakka að ég varð manneskja, jafnvel þótt ég eigi engin skilríki til að sanna það.
Nú geng ég um götur Moskvu, utangátta og með gríðarlega heimþrá, en samt er ég ekki bitur.

Ég hef í huga að ég hef átt heima í Noregi í níu ár og að þau hafa öll verið góð, þökk sé fólkinu sem veitti okkur aðstoð. Einmitt þess vegna er fréttin um innblásið ákall 58 íslenskra rithöfunda mér afar mikilvæg. Og þess vegna er ég svo snortin yfir því að lögð verði fram tillaga á Alþingi um að veita mér íslenskan ríkisborgararétt. Það er mikill léttir að vita að litið er á mig sem manneskju, líka af stjórnkerfinu og þingmönnum. Það er stórkostleg að sjá fólk gera sér grein fyrir þessum innsta kjarna málsins og að leggja fram svo djarft og frumlegt tilboð um aðstoð. Þess vegna er ég svo þakklát þeim Íslendingum sem fréttu af máli mínu og gripu til aðgerða sem færðu mér von. Það er sama hver niðurstaðan verður, fréttin um hana vekur athygli og framtakið undirstrikar að kraftaverkin verða og að við mennirnir getum komið þeim til leiðar. Ég skil vel að erfitt geti reynst að koma málinu í höfn og kannski dagar tillagan uppi á Alþingi en hugsunin á bak við skiptir mestu og vonin færir fólki líf.

Það er sama hvernig allt fer, ég vona að við Nora getum einhvern tíma heimsótt Ísland saman til að kynna okkur landið.“

Bloggsíða Amelie

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert