Stjórnarskráin þarf að vera skýrari

Ólafur Ragnar telur að skerpa þurfi ákvæði stjórnarskrárinnar í ýmsum …
Ólafur Ragnar telur að skerpa þurfi ákvæði stjórnarskrárinnar í ýmsum atriðum. Kristinn Ingvarsson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, telur að í stjórnarskrá lýðveldisins þurfi að vera skýrari ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og eins að skýra þurfi betur stöðu Hæstaréttar og dómsvaldsins.

Hann sagði í Silfri Egils í dag að að sínum dómi væri aðal veikleiki stjórnarskrárinnar sá að þrískipting ríkisvaldsins - kjarninn í vestrænni stjórnskipun - birtist ekki með nægilega skýrum hætti, hvað dómsvaldið snertir. Hann sagði að staða Hæstaréttar og varnarlínan, sem kemur í veg fyrir að stjórnmálaöfl á hverjum tíma, geti mótað dómsvaldið í sinni mynd, sé ekki nægilega skýrt í stjórnarskránni. 

Stjórnlagaþingið og kosninguna til þess bar á góma í þættinum. Ólafur Ragnar sagði að ef hann horfði á það sem stjórnmálafræðingur þá hafi vandinn verið sá kosningin hafi meira verið sett upp sem stærðfræðidæmi, hvernig ætti að telja.

„En það gleymdist að kosning er fyrst og fremst form fyrir lýðræðislega samræðu milli fólksins og þeirra sem á að kjósa,“ sagði Ólafur Ragnar. Hann sagði gleymst hafi að skapa form til að fólkið í landinu gæti látið vilja sinn í ljós.

Aðspurður um hvort hann ætlaði að gefa kost á sér fimmta kjörtímabilið í röð sagði Ólafur Ragnar að til hingað til hafi hann ekki ákveðið framboð fyrr en að því kom. Hann benti á að þjóðin og forsetaembættið séu illa stödd að sumu leyti.

Illa hafi gengið að koma stjórnlagaþingi í gang og endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hann spurði hvort staðan verði sú á næsta ári að menn verði þá í miðri endurskoðun stjórnarskrárinnar, hvort kjósa eigi þá til embættis sem enginn viti hvernig eigi að vera í stjórnskipuninni.

Hann sagði að sér þætti miður að stjórnlagaþingsferlið hafi verið með „einhverjum vandræðablæ“, eins og Ólafur Ragnar orðaði það. Hann nefndi að þátttaka hafi verið lítil í kosningunum, þeir sem náðu kjöri voru með tiltölulega lítið fylgi, svo hafi komið úrskurður Hæstaréttar. Í dag hafi svo birst niðurstaða skoðanakönnunar sem sýni að engin samstaða sé á meðal þjóðarinnar um hvað eigi að gera næst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert