Tillaga lögð fram um þjóðaratkvæði

Þór Saari.
Þór Saari.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, ætlar að leggja fram tillögu á fundi í fjárlaganefnd Alþingis síðar í dag um að Icesave-frumvarpið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stefnt er að því að nefndin afgreiði málið úr nefndinni í kvöld og að það verði tekið til umræðu á þingfundi á morgun.

„Tillagan verður lögð fram á fundi í fjárlaganefnd á eftir,“ sagði Þór. Aðspurður um hvort hann ætti von á stuðningi við tillöguna í nefndinni sagði hann að fyrir lægi að Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, myndi styðja tillöguna og Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði lýst yfir stuðningi við þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hann sagðist ekki vita um afstöðu annarra nefndarmanna.

Stefnt að því að afgreiða málið á morgun

„Ef tillagan verður felld í fjárlaganefnd þá verður hún borin upp við þriðju umræðu um málið á morgun á sérstöku þingskjali,“ sagði Þór. „Það er verið að reyna að keyra þetta mál í gegnum þingið á miklum hraða. Það er stefnt að því að klára málið í þinginu á morgun. Ástæðan fyrir þessum asa er að menn vilja vera á undan undirskriftasöfnuninni sem er í gangi.“

Könnun sem MMR gerði sýnir að 62% landsmanna styðja að Icesave- samningurinn fari í þjóðaratkvæði. Þór sagði að sér kæmi þessi niðurstaða ekki á óvart. Sama sagði Höskuldur Þórhallsson. „Ég hef sagt frá upphafi þessa máls að það sé af þeirri stærðargráðu að þjóðin eigi að taka lokaákvörðun og það hefur ekki breyst.“

Höskuldur sagðist vera ósáttur við fyrirætlun stjórnarmeirihlutans að taka málið út úr nefndinni í kvöld. Það væri ástæða til að ræða betur þær breytingartillögur sem liggja fyrir.

Fundur fjárlaganefndar hefst að loknum þingfundi sem nú stendur yfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert