Fiskvinnsla hefst á Flateyri eftir helgi

Tómlegt var um að lítast í vinnslusalnum á Flateyri fyrst …
Tómlegt var um að lítast í vinnslusalnum á Flateyri fyrst eftir gjaldþrotið, en það er nú að breystast. mbl.is/Halldór

Lotna ehf., sem keypti þrotabú Eyrarodda á Flateyri, hefur ráðið til sína 25 starfsmenn og stefnir fyrirtækið að því að fara að vinna fisk strax í næstu viku. Kristján Kristjánsson, eigandi Lotnu, segir fjölda starfsmanna ráðast af því hversu mikinn fisk fyrirtækið fái til vinnslu.

„Við vonumst til að vinnsla hefjist í næstu viku,“ sagði Kristján, en fyrstu starfsmennirnir hafa verið ráðnir. Þeir eru að gera endurbætur í fiskvinnsluhúsinu og gera bátana klára til að fara á sjó.

Kristján, er staddur á Flateyri, en sagðist ætla fljótlega suður til að ná í bát sem Lotna á og verður gerður út frá Flateyri. Báturinn heitir Kristbjörg og hefur fengið skrásetningarnúmerið ÍS-77. Báturinn er í Sandgerði, en Kristján segist vonast eftir að hann verði kominn vestur um helgina og geti þá farið í róður. Kristján sagðist einnig gera út bátinn Stjána Ebba. Búið væri að ráða fólk á hann og beitningafólk. Hann færi í róður eftir helgina. Einnig verður báturinn Bliki gerður út. Lotna á tvo aðra báta og Kristján sagði að það réðist af aflaheimildum hvort þeir yrðu gerðir út.

Lotna hefur yfir að ráða aflaheimildum sem verða fluttar til Flateyrar. Kristján sagði að fyrirtækið þyrfti hins vegar meiri heimildir. Hann sagðist vera í viðræðum við heimamenn sem eiga trillur um að landa hjá fyrirtækinu. „Við þurfum að keyra í gegnum þetta hús 1.500-200 tonn á ári,“ sagði Kristján.

Kristján sagði að 25 manns myndu fá vinnu hjá fyrirtækinu til að byrja með. Hann sagðist vonast eftir að geta ráðið fleiri ef vel gengi að tryggja húsinu hráefni. Um 40 manns störfuðu hjá Eyrarodda áður en fyrirtækið varð gjaldþrota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert