„Snýst um yfirgang og frekju í Merði“

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir mbl.is

„Þetta snýst um yfirgang og frekju í Merði,“ sagði Vigdís Hauksdóttir alþingismaður þegar hún var spurð um ástæður þess að hún hefði ákveðið að segja sig úr umhverfisnefnd Alþingis, en í bréfi sem hún sendi forseta Alþingis og fleirum vegna málsins kvartar hún undan samstarfserfiðleikum við Mörð Árnason, formann umhverfisnefndar.

Vigdís sagði að þingmenn stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar hefðu ekki sömu stöðu inn í umhverfisnefnd vegna ofríkis formanns nefndarinnar. „Stjórnarandstöðuþingmenn mega nánast ekki taka til máls á fundum umhverfisnefndar sem Mörður Árnason stýrir. Hann er með frammíköll og hróp og köll. Hann segir að maður sé með „óviðeigandi spurningar“ og sé „ekki á réttri leið“ o.s.frv. Það er ekki formanns umhverfisnefndar að ritskoða það sem stjórnarandstöðuþingmenn vilja spyrja gesti sem mæta á fundi nefndarinnar. Hann er að misskilja sína stöðu herfilega,“ sagði Vigdís.

Vigdís sagði að það sem gerðist á fundi umhverfisnefndar í morgun væri ekki eina atvikið sem snerist um fundarstjórnar formanns nefndarinnar. Á fundinum í morgun var rætt um málefni sorpbrennslustöðvarinnar í Skutulsfirði og komu um 10 gestir á fund nefndarinnar.  Í umræðum um álit umhverfisnefndar til utanríkismálanefndar varðandi EES reglugerða minnti Vigdís á fyrri ósk sína um að lagaskrifstofa stjórnarráðsins samlæsi lög sem snertu landskipulag og vatnalög. Mörður hefði verið ósáttur við þessa ábendingu. Framkoma Marðar varð til þess að Vigdís og Birgitta Jónsdóttir gengu af fundi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert