Atkvæði greidd um Icesave

Lokaatkvæðagreiðsla um Icesave-frumvarpið hófst á Alþingi klukkan 13:30. Áður en greidd verða atkvæði um frumvarpið í heild fara fram atkvæðagreiðslur um fjórar breytingartillögur. 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, og fleiri þingmenn gagnrýndu í upphafi fundar, að forseti þingsins hefði ákveðið að breyta fundartíma í dag án samráðs við þingflokka Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar. 

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að sögur hefðu komist á kreik um að verið væri að flýta afgreiðslu málsins vegna þess að forseti Íslands væri í útlöndum en hún sagðist hafa það staðfest að forsetinn sé á Íslandi. 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði ljóst, að komin væri brú milli þings og þjóðar í ljósi þess að nærri 32 þúsund manns hefðu skrifað undir kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu á vefnum kjósa.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert